Innlent

Íbúar húsanna þriggja á Flateyri mega snúa heim

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá snjóflóðunum á Flateyri í fyrra.
Frá snjóflóðunum á Flateyri í fyrra. Vísir/egill

Ákveðið hefur verið að aflétta rýmingu á Flateyri en íbúum þriggja íbúðarhúsa var gert að yfirgefa heimili sín í gær vegna snjóflóðahættu. Þeir mega því snúa heim. Sömuleiðis er talið óhætt að dvelja á hafnarsvæðinu og viðvörunarljósið þar verður slökkt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu á Vestfjörðum. Fólk er þó hvatt til þess að halda sig neðan varnargarðsins.

Enn er í gildi rýming atvinnuhúsnæðis í Skutulsfirði, sem rýmd voru á föstudaginn. Þá hefur verið ákveðið að opna veginn milli Ísafjarðar og Súðavíkur og eins áformar Vegagerðin að opna veginn áfram suður yfir Steingrímsfjarðarheiði.

Tilkynning lögreglu í heild:

Aflétting rýmingar á Flateyri og opnun milli Ísafjaðar og Súðavíkur.

Skv. ráðgjöf frá ofanflóðaeftirliti Veðurstofunnar hefur verið ákveðið að aflétta rýmingu á Flateyri. Þannig mega íbúar þeirra þriggja íbúðarhúsa, sem þurftu að yfirgefa heimili sín í gær, halda heim. Sömuleiðis er talið óhætt að dvelja á hafnarsvæðinu og viðvörunarljósið verður slökkt.

Það kunnu að falla litlar meinlausar spýjur ofan varnargarðsins og er því fólk hvatt til þess að halda sig neðan garðsins.

Flateyrarvegur er enn lokaður af öryggisástæðum en skoðun stendur yfir m.t.t. hvort óhætt verði að opna hann. Það skýrist þegar líður á daginn. Upplýsingar um framvindu þess má sjá á vefsíðu Vegagerðarinnar og eins í upplýsingasímanum 1777.

Enn er í gildi rýming atvinnuhúsa í Skutulsfirði, sem rýmd voru á föstudaginn. Þetta er húsnæði Fjarðarnets og Terra við Skutulsfjarðarbraut og sorpmótaka Terra í botni fjarðarins. Staðan verður metin í fyrramálið, hvort óhætt verði talið að aflétta rýmingu þar.

Þá hefur verið ákveðið að opna veginn milli Ísafjarðar og Súðavíkur og eins áformar Vegagerðin að opna veginn áfram suður yfir Steingrímsfjarðarheiði. Varðandi framvindu opnunar vegarins er hvatt til þess að fylgst verði með á heimasíðu Vegagerðarinnar og/eða upplýsingasíma VR, 1777.

Vegurinn upp á Seljalandsdal í Skutulsfirði er enn lokaður en enn eru óhlaupin gil þar fyrir ofan og ekki talið óhætt að opna veginn í dag.

Vegurinn um Eyrarhlíð var opnaður fyrr í dag, en honum var lokað í nótt vegna snjóflóðahættu. Fólk er þó beðið um að fara veginn ekki að óþörfu og gæta varúðar ef nauðsynlegt er að aka hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×