Erlent

Rúmlega fimmtíu þúsund Þjóðverjar hafa dáið vegna Covid-19

Samúel Karl Ólason skrifar
Þjóðverjar bíða eftir því að komast í bólusetningu.
Þjóðverjar bíða eftir því að komast í bólusetningu. EPA/OLIVER VOGLER

Fjöldi þeirra sem hafa dáið vegna Covid-19 í Þýskalandi er kominn yfir fimmtíu þúsund. Yfirvöld þar opinberuðu í dag 859 dauðsföll milli daga og samkvæmt opinberum tölum hafa 50.642 dáið þar í landi.

Fjöldi látinna hefur aukist hratt á undanförnum vikum, samhliða því að dregið hefur úr hraðri dreifingu nýju kórónuveirunnar, sem veldur Covid-19.

Það var þann 10. janúar sem Þýskaland fór yfir 40 þúsund látna.

Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, varaði við því í dag að faraldurinn væri enn á fullu skriði og ekki væri hægt að draga úr takmörkunum að svo stöddu. Núverandi takmarkanir voru nýverið framlengdar til 14. febrúar.

Spahn sagði á blaðamannafundi í dag að það væri jákvætt að fjöldi nýsmitaðra hefði dregist saman á undanförnum dögum en hann væri enn allt of hár. Veturinn hefði verið erfiður en von væri á betra sumri.

Eins og bent er á í frétt AP fréttaveitunnar sluppu Þjóðverjar tiltölulega vel í upphafi heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar og var takmörkunum aflétt snemma. Hins vegar fjölgaði smituðum hratt í haust og í vetur.

Í apríl virtust Þjóðverjar til að mynda í mun betri stöðu en nágrannar sínir.

Sjá einnig: Þjóðverjar virðast standa öðrum framar í baráttunni gegn Covid-19

Um 83 milljónir manna búa í Þýskalandi en í ríkjum eins og Ítalíu, Bretlandi, Frakklandi og Spáni búa færri en fleiri hafa bæði smitast og dáið.


Tengdar fréttir

Gagnrýna WHO og Kínverja fyrir hægagang í upphafi faraldursins

Sérfræðingaráð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sem skipað var í vor til að kanna viðbrögðin við faraldri nýju kórónuveirunnar gagnrýnir Kína og stofnunina sjálfa fyrir að ekki hafi verið brugðist nógu snemma við.

Hafa áhyggjur af fjölgun afbrigða

Með sífellt aukinni dreifingu nýju kórónuveirunnar hefur nýjum afbrigðum veirunnar sem veldur Covid-19 fjölgað. Hvert smit gefur vírusnum tækifæri á að stökkbreytast og verður líklegra að afbrigði líti dagsins ljós sem geti gert skimun og meðferð erfiðari og jafnvel afbrigði sem núverandi bóluefni virki ekki gegn.

Ó­jöfn dreifing bólu­efnis „sið­ferði­legt stór­slys“

Það er ósanngjarnt að yngra og heilbrigðara fólk í ríkari þjóðum heimsins sé bólusett við kórónuveirunni áður en viðkvæmir hópar í fátækari löndum fá bólusetningu. Þetta segir Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem er afar gagnrýninn á það hvernig bóluefni hefur verið dreift.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×