Fjöldi látinna hefur aukist hratt á undanförnum vikum, samhliða því að dregið hefur úr hraðri dreifingu nýju kórónuveirunnar, sem veldur Covid-19.
Það var þann 10. janúar sem Þýskaland fór yfir 40 þúsund látna.
Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, varaði við því í dag að faraldurinn væri enn á fullu skriði og ekki væri hægt að draga úr takmörkunum að svo stöddu. Núverandi takmarkanir voru nýverið framlengdar til 14. febrúar.
Spahn sagði á blaðamannafundi í dag að það væri jákvætt að fjöldi nýsmitaðra hefði dregist saman á undanförnum dögum en hann væri enn allt of hár. Veturinn hefði verið erfiður en von væri á betra sumri.
Eins og bent er á í frétt AP fréttaveitunnar sluppu Þjóðverjar tiltölulega vel í upphafi heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar og var takmörkunum aflétt snemma. Hins vegar fjölgaði smituðum hratt í haust og í vetur.
Í apríl virtust Þjóðverjar til að mynda í mun betri stöðu en nágrannar sínir.
Sjá einnig: Þjóðverjar virðast standa öðrum framar í baráttunni gegn Covid-19
Um 83 milljónir manna búa í Þýskalandi en í ríkjum eins og Ítalíu, Bretlandi, Frakklandi og Spáni búa færri en fleiri hafa bæði smitast og dáið.