Enski boltinn

Aguero í COVID-kapphlaupi um að ná Liverpool leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Agüero fagnar hér marki fyrir Manchester City á móti Liverpool.
Sergio Agüero fagnar hér marki fyrir Manchester City á móti Liverpool. Getty/Clive Brunskill/

Argentínski framherjinn Sergio Agüero hefur ekki verið mikið með Manchester City á þessu tímabili og nú lengist biðin enn eftir honum.

Agüero er nú kominn með kórónuveiruna og því er óljóst hvort að hann fái leyfi til að spila leikinn á móti Liverpool 7. febrúar næstkomandi.

Agüero hafði verið í sóttkví eftir að einstaklingur sem hann hafði umgengst fékk kórónuveiruna. Hann hefur misst af síðustu þremur leikjum Manchester City á móti Brighton & Hove Albion, Crystal Palace og Aston Villa.

Argentínumaðurinn hefur nú látið vita af því á samfélagsmiðlum sínum að hann hafi fengið jákvæða niðurstöðu úr COVID-19 prófi.

„Síðasta prófið sem ég tók var jákvætt. Ég hef sýnt smá einkenni og fylgi ráðleggingum lækna til að ná mér sem fyrst. Passið upp á ykkur öll,“ skrifaði Sergio Agüero.

Agüero verður núna í einangrun í tíu daga til viðbótar og hann þarf að fá neikvæða niðurstöðu úr COVID-19 smitprófi til að geta æft og spilað með Manchester City liðinu á nýjan leik.

Agüero hefur verið að koma til baka eftir meiðsli en hann hefur aðeins spilað fimm deildarleiki á tímabilinu.

Í dag eru sextán dagar í Liverpool leikinn og Agüero verður því í COVID-kapphlaupi um að ná honum. Hann er heldur ekki í mikilli leikæfingu sem gæti þýtt að Pep Guardiola noti hann ekki ekki í þessum stórleik.

Fjarvera hans á næstunni er samt áfall fyrir Manchester City liðið ekki síst þar sem bæði Kevin De Bruyne og Kyle Walker eru að glíma við meiðsli. City liðið fær hins vegar ekki á sig mark þessa dagana og hefur nú unnið sex deildarleiki í röð með markatölunni 13-1.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.