Erlent

Minnst fjórir látnir og tíu særðir í Madríd

Samúel Karl Ólason skrifar
Slökkviliðsmenn virða rústirnar fyrir sér.
Slökkviliðsmenn virða rústirnar fyrir sér. AP/Bernat Armangue

Minnst fjórir eru látnir og minnst tíu særðir eftir mikla sprengingu í Madríd í gær. Sprengingin varð þegar verið var að gera við gaskerfi sjö hæða húss í Puerta de Toledo, nærri miðborg Madrídar, og olli hún gífurlegum skemmdum.

Húsið er ónýtt eftir sprenginguna.

El País segir frá því að mikil gaslykt hafi fundist í húsinu í gær og hafi hún ágerst. Því hafi prestur kallað til viðgerðarmann. Skömmu eftir að hann mætti hafi byggingin sprungið en viðgerðarmaðurinn er meðal þeirra látnu.

Presturinn lést einnig.

Sprengingin olli miklum usla í hverfinu. Einn nágranni sem El País ræddi við segist hafa horft á svalirnar sínar koma inn í gegnum vegginn á íbúð sinni í sprengingunni og segir ótrúlegt að hann hafi ekki dáið eða slasast. Eftir sprenginguna hafi húsið sem hann býr í nötrað í um fimmtán sekúndur.

57 íbúar dvalarheimilis, sem er við hlið hússins sem sprakk, voru fluttir á brott af íbúum hverfisins og komu þau sér tímabundið fyrir á hóteli þar nærri. Hinu megin við húsið er grunnskóli en á milli húsanna er leikgarður. Hann var þó tómur og einungis eitt barn særðist lítillega á höfði.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.