Enski boltinn

Sjö mánaða samninga­við­ræður engu skilað

Anton Ingi Leifsson skrifar
Wijnaldum gæti verið á leiðinni burt frá Bítlaborginni í sumar.
Wijnaldum gæti verið á leiðinni burt frá Bítlaborginni í sumar. EPA-EFE/KOEN VAN WEEL

Hinn virti fréttamaður Fabrizio Romano, sem er oftar en ekki einna fyrstur með fréttir af félagaskiptum leikmanna, er ekki með góðar fréttir fyrir stuðningsmenn Liverpool hvað varðar Gini Wijnaldum.

Samningur Hollendingsins við félagið rennur út í sumar en Liverpool hefur boðið honum nýjan samning. Félagið og forráðamenn Liverpool hafa þó ekki komist að samkomulagi um nýjan samning þrátt fyrir sjö mánaða viðræður.

Fabrizio greinir frá því að síðasta boð Liverpool til Hollendingsins hafi verið í desember og hann hafi enn ekki játað því. Hann ku vilja vera einn af launahæstu leikmönnum félagsins er núverandi samningur hans við félagið rennur út í sumar.

Liverpool hefur ekki farið leynt með það að félagið vilji halda honum áfram hjá félaginu en er ekki talið vilja mæta launakröfum hans um að verða einn af þeim launahæstu. Wijnaldum er 31 árs, verður 32 ára í nóvember, en Barcelona er sagt vera reiðubúið að bjóða honum myndarlegan samning.

Wijnaldum hefur verið í herbúðum Liverpool frá árinu 2016. Hann hefur orðið enskur meistari með félaginu sem og unnið Meistaradeildina. Hann kom til félagsins frá Newcastle en þar áður lék hann með PSV og Feyenoord í heimalandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×