Erlent

Nei, Boris blundar ekki

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ekki er gert ráð fyrir lúr í dagskrá Boris Johnson samkvæmt talsmanni.
Ekki er gert ráð fyrir lúr í dagskrá Boris Johnson samkvæmt talsmanni. getty/John phillips

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands blundar ekki á vinnutíma. Þetta sagði fjölmiðlafulltrúi Johnson á daglegum blaðamannafundi í dag.

Spurningunni var varpað fram í kjölfar fréttar sem bitist í The Times, þar sem haft var eftir heimildarmanni innan Downing-strætis að ráðherrann tæki sér stundum eins og hálftíma til að kúra og hlaða rafhlöðurnar fyrir restina af deginum.

„Forsætisráðherrann leggur sig ekki,“ sagði Allegra Stratton hins vegar á blaðamannafundinum. „Þessar fréttir eru ósannar.“

Johnson ku ekki hafa tíma til að taka kríu yfir daginn.epa/Facundo Arrizabalaga

Spurð að því hvort það væri rétt að dagbók ráðherra gerði ráð fyrir „stund milli stríða“ svaraði hún nei og ítrekaði að Johnson blundaði ekki.

„Dagskráin hans er stútfull frá morgni til kvölds.“

Samkvæmt Sky News er það þó ekki óþekkt að íbúar Downing-strætis 10 taki sér lúr yfir daginn. Margaret Thatcher, sem var þekkt fyrir að sofa aðeins fjóra tíma á nóttu, hallaði til dæmis aftur augunum á meðan henni var ekið um.

Þá er Churchill sagður hafa lagt sig í að minnsta kosti klukkustund seinnipart dags.

„Náttúran gerði ekki ráð fyrir því að mannskepnan ynni frá átta á morgnana til miðnættis án endurnæringar blessaðs algleymis sem, jafnvel þótt það vari aðeins í tuttugu mínútur, nægir til að endurnýja alla nauðsynlega krafta,“ skrifaði hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×