Erlent

Greta Thunberg heiðruð á sænsku frímerki

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eins manns mótmæli Gretu gegn loftslagsbreytingum urðu að alheimshreyfingu og hefur Greta meðal annars verið nefnd einstaklingur ársins af Time og tvívegis verið tilnefnd til Nóbelsverðlaunanna.
Eins manns mótmæli Gretu gegn loftslagsbreytingum urðu að alheimshreyfingu og hefur Greta meðal annars verið nefnd einstaklingur ársins af Time og tvívegis verið tilnefnd til Nóbelsverðlaunanna. epa/PostNord

Teikning af aðgerðasinnanum Gretu Thunberg prýðir nú sænskt frímerki. Um er að ræða viðurkenningu til handa Thunberg, fyrir viðleitni hennar til að „varðveita einstaka náttúru Svíþjóðar fyrir komandi kynslóðir.“

Á frímerkinu sést Greta, í gulu regnkápunni sinni og með fléttu í hárinu, standa á klettabrún en svölur fljúga yfir. Frímerkið er eitt í röð merkja með teikningum eftir Henning Trollbäck en röðin ber yfirskriftina „Verðmæt náttúra“.

Á sumum merkjanna má finna þau markmið sem sænsk stjórnvöld hafa sett í umhverfismálum en önnur, sem ætluð eru á bréf innanlands, sýna fjöll, skóga og plöntur. Á frímerkjum sem ætluð eru á sendingar innan Evrópu er að finna mynd af hakakörtu í útrýmingarhættu.

„Það gleður okkur að Greta, og nokkrar teikningar af mikilvægum náttúrufyrirbrigðum, skuli prýða frímerkin okkar,“ hefur Guardian eftir Kristinu Olafsdottur hjá PostNord. „Þessar náttúruminjar eru afar mikilvægar og við þurfum öll að leggja okkar af mörkum til að varðveita þær.“

Sænska póstþjónustan hefur áður valið að prýða frímerkin sín með myndum af öðrum þekktum Svíum, meðal annars Astrid Lindgre, knattspyrnumanninum Zlatan Ibrahimovi ć og tónlistarmanninum Avicii.

Thunberg varð 18 ára á dögunum og sagði af því tilefni að hún væri hætt að fljúga og „neyta hluta“ en sagðist ekki dæma aðra sem væru ekki jafn umhverfisvænir.

„Ég er ekki að segja öðrum hvað þeir eiga að gera. Þegar þú ert mikið að tala um þetta en gerir ekki eins og þú segir þá er hætt við því að þú kallir á gagnrýn og að þú sért ekki tekin alvarlega.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×