Enski boltinn

Solskjær: Gætum ekki mætt á Anfield á betri tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær fagnar Paul Pogba eftir að franski landsliðsmaðurinn hafði tryggt Manchester United öll þrjú stigin.
Ole Gunnar Solskjær fagnar Paul Pogba eftir að franski landsliðsmaðurinn hafði tryggt Manchester United öll þrjú stigin. Getty/Matthew Peters

Ole Gunnar Solskjær er búinn að koma liði Manchester United á toppinn í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í langan tíma og næst á dagskrá er heimsókn til Englandsmeistara Liverpool um næstu helgi.

Manchester United náði tryggja stiga forskoti á Liverpool eftir 1-0 útisigur á Burnley í gærkvöldi en Paul Pogba skoraði eina mark leiksins. Þetta er í fyrsta sinn frá 2012-13 tímabilinu þar sem United situr í toppsætinu eftir áramót.

„Við erum að verða betri og betri. Við erum í góðri stöðu. Það mun samt enginn muna eftir töflunni frá 12. janúar. Sunnudagurinn er próf á bæði karakter og gæðum liðsins. Við hlökkum til,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.

„Við erum að fara í próf á móti sönnum meisturum og langbesta liði deildarinnar í langan tíma. Við erum tilbúnir, spenntir og hungraðir. Við gætum ekki mætt á Anfield á betri tíma,“ sagði Solskjær.

Á sama tíma og Manchester United hefur unnið hvern leikinn á fætur öðrum þá hefur lítið sem ekkert gengið hjá Liverpool liðinu.

Stuðningsmenn Manchester United hafa þurft að bíða lengi eftir Paul Pogba en nú er hann farinn að spila eins og hann á að sér á ný. Pogba var hetja liðsins í gærkvöldi.

„Við erum að sjá bestu útgáfuna af Pogba þessa dagana. Paul hefur verið meiddur og hann þurfti tíma til að komast aftur í sitt besta form. Ég hef alltaf sagt það að Paul sé mikilvægur leikmaður fyrir okkur. Hann er líka öflugur karakter í búningsklefanum,“ sagði Solskjær.

Manchester United hefur ekki fagnað sigri á Anfield í fimm ár.

„Við förum fullir sjálfstrausts inn í leikina okkar núna. Við höfum staðið okkur mjög vel á útivelli. Við þurfum að trúa á okkur sjálfa sem og við gerum. Þetta eru góðir tímar,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×