Enski boltinn

Mo Salah með fallegasta markið fjórða mánuðinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah hefur skorað mörg falleg mörk á leiktíðinni til þessa.
Mohamed Salah hefur skorað mörg falleg mörk á leiktíðinni til þessa. Getty/Peter Byrne

Mohamed Salah er ekki aðeins að skora mörg mörk fyrir Liverpool á leiktíðinni því mörg af þessum mörkum hans eru líka mjög falleg mörk. Það sést vel á kosningu á flottustu mörkum mánaðanna á tímabilinu.

Egypski framherjinn hefur nú skorað fallegasta mark Liverpool fjórða mánuðinn í röð en enginn annar leikmaður liðsins hefur náð þessu á tímabilinu.

Nýjasta verðlaunmark Mohamed Salah var glæsilegt mark hans á móti Crystal Palace á Selhurst Park en það var valið fallegasta mark Liverpool í desember.

Mohamed Salah fékk ekki að byrja þennan leik á móti Crystal Palace en kom inn á sem varamaður og skoraði tvívegis í 7-0 sigri.

Markið sem fékk verðlaunin var frábært skot hans af rúmlega átján metra færi óverjandi upp í fjærhornið.

Stuðningsmenn Liverpool fengu að venju að velja fallegasta markið á Liverpoolfc.com og hlaut Salah flest atkvæði.

Roberto Firmino náði hins vegar bæði öðru og þriðja sætinu í kosningunni en þar var um að ræða sigurmark hans á móti Tottenham og fyrsta markið á móti Crystal Palace. Mark Georginio Wijnaldum á móti Wolverhampton Wanderers á Anfield endaði síðan í fjórða sæti.

Mohamed Salah hafði áður verið verðlaunaður fyrir mark sitt á móti Leeds United í september, mark sitt á móti Everton í október og loks mark sitt á móti ítalska félaginu Atalant í nóvember.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.