Innlent

Ekki útilokað að grípa til sams konar aðgerða og Danir og Bretar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir útilokar ekki að krefja fólk um neikvætt vottorð við kórónuveirunni fyrir komu þess til Íslands. Hann segir helstu hættuna sem steðji að Íslendingum vera fjölda smita á landamærunum.

Nýjar sóttvarnarreglur tóku gildi í Danmörku um helgina en þær kveða á um að enginn komi til landsins nema með framvísun vottorðs um að vera ekki með Covid-19. Sama er upp á teningnum hjá Bretum en sóttvarnaraðgerðir þar eru þær ströngustu í heimi. Hér á landi hafa töluvert fleiri verið að greinast við landamærin en innanlands - og má í því samhengi nefna að þrír greindust með kórónuveiruna innanlands í gær en sautján á landamærunum.

„Ég held að helsta hættan sem steðjar að okkur núna er að við fáum smit inn í landið í gegnum landamærin,“ segir Þórólfur.

Slakað verður á samkomutakmörkunum innanlands á morgun en sóttvarnalæknir hefur sent ráðherra tillögur um hertar aðgerðir á landamærum, en hann vill afnema val á fjórtán daga sóttkví – og að allir verði skyldaðir í skimun. Sé það ekki hægt þurfi fólk að fara í farsóttahúsið.

„Ef það sýnir sig að þetta núverandi fyrirkomulag er ekki alveg að ráða við álagið, að þá gæti komið til greina að gera eins og Bretar og Danir að krefja fólk um neikvætt vottorð skömmu fyrir brottför,“ segir Þórólfur.

Sú hætta sé vissulega til staðar að breska afbrigðið greinist hér. „Maður þarf að vera undir allt búinn og tilbúinn með tillögur ef það sýnir sig að fyrirkomulagið sem við höfum gripið til dugar ekki.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.