Erlent

Þrír látnir vegna snjó­komunnar á Spáni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Einhverjir hafa nýtt sér snjókomuna til þess að draga fram sleða og skíði.
Einhverjir hafa nýtt sér snjókomuna til þess að draga fram sleða og skíði. EPA-EFE/BALLESTEROS

Þrír hafa látist í storminum sem ríður nú yfir Spán. Mikill snjór hefur fallið um allt landið og hefur veðrið komið í veg fyrir ferðalög. Þetta er mesta snjókoma sem sést hefur í Madríd í áratugi og viðbragðsaðilar hafa verið kallaðir út til þess að aðstoða ökumenn sem hafa fest bíla sína í snjónum.

Viðbragðsaðilar hafa það sem af er degi þurft að koma 1500 manns til aðstoðar sem hafa setið fastir í bílum sínum. Snjórinn í Madríd gerði skíðafólki kleift að draga fram skíðin og skíða um borgina.

Karlmaður og kona drukknuðu eftir að á flæddi yfir bakka sína nærri Malaga á suður Spáni. Heimilislaus maður varð úti í nótt í Calatayudborg.

Fernando Grande-Marlaska, innanríkisráðherra Spánar, hvatti fólk til þess að halda sig heima.

„Nú ríður yfir okkur versti stormur síðustu hálfa öldina,“ sagði hann í dag.

Meira en 650 vegir hafa verið lokaðir vegna snjókomunnar og fjöldi fólks þurfti að sofa í bílum sínum í nótt eftir að það festist á vegum.

Skólar eru lokaður þar til á miðvikudag vegna veðursins og Barajas flugvöllur í Madríd hefur verið lokaður frá því í gær og verður lokaður út daginn í dag. Meira en fimmtíu flugum sem fljúga áttu til Madríd, Malaga, Tenerife og Ceuta var aflýst vegna veðursins.

Veðurstofa Spánar greindi frá því í dag að svona mikill snjór hafi ekki fallið í Madríd frá árinu 1971.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×