DeVos er annar ráðherrann í ríkisstjórn Trumps sem segir af sér vegna málsins, en í gær tilkynnti samgönguráðherrann Elaine Chao um afsögn sína eftir að hafa melt atburðina í og við þinghúsið og viðbrögð forsetans við þeim.
CNN greinir frá því að í afsagnarbréfi sínu segir DeVos að hegðun fólksins sem réðst inn í þinghúsið hafi verið „svívirðileg“ og að ekki verði framhjá því litið að „áhrif orðræðu“ forsetans hafi verið mikil á framvinduna og skipt þar sköpum.
„Áhrifagjörn börn eru að fylgjast með þessu öllu og læra af okkur,“ sagði DeVos.
DeVos var skipuð menntamálaráðherra í ríkisstjórn Trumps árið 2016, en hún hafði þá verið í hópi helstu fjárhagslegu bakhjarla Repúblikanaflokksins auk þess að vera fyrrverandi formaður flokksins í Michigan-ríki. Þótti stuðningur hennar við skóla sem reknir eru af einstaklingum eða félagasamtökum en njóta fjárstuðnings hins opinbera (e. charter schools) umdeildur.
Erfiðlega gekk á sínum tíma að fá Bandaríkjaþing til að staðfesta DeVos í embætti og þurfti varaforsetinn Mike Pence að nýta atkvæðisrétt sinn þar sem tveir þingmenn Repúblikana lögðust gegn skipuninni sem gerði það að verkum að jafnt var í fylkingum.