Erlent

Annar ráð­herra í ríkis­stjórn Trumps segir af sér

Atli Ísleifsson skrifar
Betsy DeVos var gerð að menntamálaráðherra í ríkisstjórn Donalds Trump árið 2017.
Betsy DeVos var gerð að menntamálaráðherra í ríkisstjórn Donalds Trump árið 2017. Getty

Betsy DeVos, menntamálaráðherra Bandaríkjanna, hefur skilað inn afsögn sinni til Donalds Trump Bandaríkjaforseta, þrettán dögum fyrir embættistöku nýs forseta. DeVos segir að aðkoma Trumps hafi skipt sköpum varðandi það að æstur múgur hafi ráðist inn í bandaríska þinghúsið á miðvikudag.

DeVos er annar ráðherrann í ríkisstjórn Trumps sem segir af sér vegna málsins, en í gær tilkynnti samgönguráðherrann Elaine Chao um afsögn sína eftir að hafa melt atburðina í og við þinghúsið og viðbrögð forsetans við þeim.

CNN greinir frá því að í afsagnarbréfi sínu segir DeVos að hegðun fólksins sem réðst inn í þinghúsið hafi verið „svívirðileg“ og að ekki verði framhjá því litið að „áhrif orðræðu“ forsetans hafi verið mikil á framvinduna og skipt þar sköpum.

„Áhrifagjörn börn eru að fylgjast með þessu öllu og læra af okkur,“ sagði DeVos.

DeVos var skipuð menntamálaráðherra í ríkisstjórn Trumps árið 2016, en hún hafði þá verið í hópi helstu fjárhagslegu bakhjarla Repúblikanaflokksins auk þess að vera fyrrverandi formaður flokksins í Michigan-ríki. Þótti stuðningur hennar við skóla sem reknir eru af einstaklingum eða félagasamtökum en njóta fjárstuðnings hins opinbera (e. charter schools) umdeildur.

Erfiðlega gekk á sínum tíma að fá Bandaríkjaþing til að staðfesta DeVos í embætti og þurfti varaforsetinn Mike Pence að nýta atkvæðisrétt sinn þar sem tveir þingmenn Repúblikana lögðust gegn skipuninni sem gerði það að verkum að jafnt var í fylkingum.


Tengdar fréttir

Samgönguráðherra Bandaríkjanna segir af sér

Elaine Chao, samgönguráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt af sér. Hún segir í tilkynningu sem hún birti á Twitter að hún sé þjökuð vegna atburða gærdagsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.