Erlent

„Þetta eru ekki mótmæli, þetta er uppreisn“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Joe Biden var ómyrkur í máli í ávarpi sínu.
Joe Biden var ómyrkur í máli í ávarpi sínu. AP Photo/Susan Walsh

Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseti, flutti ávarp nú fyrir stundu vegna þeirrar ringulreiðar sem nú ríkir í Washington D.C. eftir að mótmælendur brutu sér leið inn í þinghúsið. Biden baðst afsökunar á að hafa flutt ávarp sitt seinna en áætlað var, en upphaflega hafði hann ætlað að tala um efnahagsmál í ávarpi sínu.

„Á þessari stundu sætir lýðræðið okkar fordæmalausri árás. Ólíkt nokkru sem við höfum áður séð í nútímanum,“ sagði Biden. Árásin beinist meðal annars að þeim sem eigi að vernda borgarana, lögreglu og þingvörðum.

„Ég ætla að vera mjög skýr um það að atburðirnir í þinghúsinu endurspegla ekki hina raunverulegu Ameríku, stendur ekki fyrir það hver við erum. Það sem við erum vitni að er lítill hluti af öfgahyggjumönnum,“ sagði Biden.

„Þetta er óregla, þetta er ringulreið,“ bætti Biden við sem var mjög ákveðinn og harðorður í ávarpi sínu. „Þessu verður að linna. Núna,“ sagði Biden um leið og hann beindi orðum sínum til þeirra sem taka þátt í óeirðunum: „Dragið ykkur í hlé og leyfið lýðræðinu að halda áfram.“

Það skipti máli hvað forseti segi, hvort sem það sé til góðs eða ills, en orð forseta geti ávallt verið innblástur.

„Þess vegna skora ég á Trump forseta að koma fram í sjónvarpi núna, til að standa við þann eið sem hann hefur svarið, og vernda stjórnarskrána og krefjast þess að binda enda á þetta,“ sagði Biden.

„Þetta eru ekki mótmæli, þetta er uppreisn,“ sagði verðandi forsetinn ennfremur. „Í gegnum stríð og átök höfum við mátt þola margt. Og við munum komast yfir þetta.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×