Klopp var verulega ósáttur með dómgæsluna í leik Liverpool og Southampton á mánudaginn og sagði að Englandsmeistararnir hefðu verið sviknir um tvær vítaspyrnur.
Þá benti Klopp á að Manchester United hafi fengið fleiri víti á undanförnum tveimur árum en Liverpool hafi fengið síðan hann tók við liðinu fyrir fimm og hálfu ári síðan.
Kjartan Atli Kjartansson er ekki hrifinn af umræðunni sem hefur fylgt þessum ummælum Klopps.
„Haldiði virkilega að það sé vilji dómarastéttarinnar að eitt lið fái betri meðferð en eitthvað annað? Halda menn virkilega að allir séu á móti Liverpool?“ sagði Kjartan Atli í Sportinu í dag.
„Svo við tölum hreina íslensku er þetta bara væll af bestu sort. Svona væll gerir ekkert annað en að fá stuðningsmenn annarra liða til að hlæja,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson um dómaraumræðuna.
„Þetta kallast titringur og þegar þú ert farinn að væla í fjölmiðlum yfir fjölda vítaspyrna og annað, þetta er bara íslenskur væll. Það er titringur hjá Klopp.“

Sportið í dag er hlaðvarpsþáttur um íþróttir sem er aðgengilegur á hlaðvarpsvef Vísis og í útvarpsappi Bylgjunnar, FM957 og X-ins. Náðu í appið í App Store og Google Play.