Erlent

Veðmál á vitlausan hest tafði bólusetningar í Hollandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hollenskir heilbrigðisstarfsmenn fengu fyrsta skammtinn í dag.
Hollenskir heilbrigðisstarfsmenn fengu fyrsta skammtinn í dag. AP/Piroschka van de Wouw

Hollenska ríkisstjórnin hefur verið harðlega gagnrýnd vegna tafa sem orðið hafa á bólusetningu vegna Covid-19 þar í landi. Bólusetning hófst þar fyrst í dag, tíu dögum eftir að bólusetning hófst í grannríkjunum.

Í frétt BBC eru ástæðurnar fyrir töfunum meðal annars raktar til þess að uppfæra hafi þurft tölvukerfi svo fylgjast mætti með tímapöntunum og hvaða bóluefni væri gefið hverjum.

Veðjuðu á Oxford-bóluefnið

Líkt og önnnur ríki innan ESB fékk Holland sendingu af bóluefni Pfizers og BioNTech þann 27. desember síðastliðinn. Ekki tókst hins vegar að dreifa bóluefninu innanlands fyrr en síðustu daga þar sem heilbrigðisyfirvöld í Hollandi höfðu reiknað með að bóluefni Oxford/AstraZeneca yrði fyrst á markað.

Geyma þarf bóluefni Pfizer og BioNTech í -80 gráðu frosti og höfðu yfirvöld í Hollandi ekki gert nægjanlegar ráðstafanir til þess að geta tryggt hitastigið við dreifingu innan Hollands, að því er segir í frétt BBC.

Hollenski heilbrigðisráðherrann Hugo de Jonge, klappar hér fyrir Sanna Elkadiri, sem varð sú fyrsta til að fá bólusetningu gegn Covid-19 í Hollandi í dag.(Piroschka van de Wouw/Pool via AP)

 Hefur ríkisstjórnin verið harðlega gagnrýnd vegna seinagangsins. Stjórnarandstaðan, sem gírar sig upp fyrir þingkosningar í mars, sagði aðgerðir ríkisstjórnarinnar, vera bæði kaotískar og undarlegar.

Hugo de Jonge, heilbrigðisráðherra Hollands, hefur tekið á sig mestu gagnrýnina vegna málsins. Hann hefur reynt að verja sig með því að benda á að ríki heimsins séu ekki í keppni varðandi bólusetningu.

Hann hefur þó viðurkennt að hann hefði getað brugðist hraðar við og að undirbúningurinn hefði mátt vera betri.

Bólusetningar hófust sem fyrr segir í dag. Þrjátíu þúsund heilbrigðisstarfsmenn verða bólusettir í fyrstu.


Tengdar fréttir

Bólu­setningar hefjast innan Evrópu­sam­bandsins

Aðildarríki Evrópusambandsins munu hefja bólusetningar gegn kórónuveirunni sem veldur Covid-19 í dag. Dagsetningin 27. desember var ákveðin fyrr í mánuðinum og áttu bólusetningar að hefjast sama dag innan sambandsins til þess að sýna fram á samstöðu ríkjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×