Erlent

Sextíu þúsund greindust á einum degi í Bretlandi

Sylvía Hall skrifar
Faraldurinn virðist vera í miklum vexti í Bretlandi þar sem yfir fimmtíu þúsund hafa greinst daglega undanfarna viku.
Faraldurinn virðist vera í miklum vexti í Bretlandi þar sem yfir fimmtíu þúsund hafa greinst daglega undanfarna viku. epa/Andy Rain

Fjöldi nýrra smita fór yfir sextíu þúsund í fyrsta sinn í Bretlandi í dag. Daglegur fjöldi greindra smita hefur verið yfir fimmtíu þúsund frá 29. desember síðastliðnum, en samhliða þessari fjölgun hefur álag á sjúkrahús landsins aukist til muna.

Þrátt fyrir að fjöldi nýrra smita hafi aldrei farið yfir sjö þúsund á dag í fyrstu bylgju faraldursins í vor má að öllum líkindum rekja það til þess að mun færri sýni voru tekin á þeim tíma. Er jafnvel talið að fjöldi nýrra smita hafi verið um hundrað þúsund á dag í lok mars, þó þau hafi ekki verið greind.

Prófessorinn Chris Whitty, sem er einn helsti læknisfræðilegi ráðgjafi ríkisstjórnarinnar, segir veiruna mjög útbreidda í bresku samfélagi og fjöldi smita jafngildi því að einn af hverjum fimmtíu sé smitaður. Sú tala sé þó breytileg eftir landshlutum.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á spítala í Lincolnskíri í austurhluta Bretlands og hefur lífsnauðsynlegum krabbameinsaðgerðum verið frestað sums staðar í Lundúnaborg þar sem sjúkrahúsin eru yfirfull.

Boris Johnson forsætisráðherra tilkynnti í gær að útgöngubann yrði í gildi fram í febrúar. Ef vel gengi að koma böndum á faraldurinn væri mögulegt að aflétta því um miðjan febrúar, en hann hefði miklar áhyggjur af útbreiðslu nýs afbrigðis veirunnar sem er talið mun meira smitandi en önnur afbrigði.


Tengdar fréttir

Útgöngubann á Englandi

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í kvöld um útgöngubann vegna kórónuveirufaraldursins í Englandi. Í ávarpi sem hann flutti í kvöld sagði hann útbreiðslu nýs afbrigðis veirunnar, sem herjað hefur á Bretlandseyjar og er talið 50 til 70 prósent meira smitandi en flest önnur afbrigði, vera áhyggjuefni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.