Erlent

Fólk ekki flutt á sjúkrahús ef lífslíkur eru taldar afar litlar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þúsundir bíða nú í bifreiðum sínum við Dodger-leikvanginn í Los Angeles til að komast í skimun vegna Covid-19.
Þúsundir bíða nú í bifreiðum sínum við Dodger-leikvanginn í Los Angeles til að komast í skimun vegna Covid-19. epa/Etienne Laurent

Sjúkraflutningamenn í Los Angeles-sýslu í Kaliforníu í Bandaríkjunum hafa fengið fyrirskipun um að flytja ekki sjúklinga á sjúkrahús þegar lífslíkur þeirra eru taldar afar litlar.

Þá hefur þeim verið sagt að fara varlega í súrefnisnotkun en mjög hefur gengið á súrefnisbirgðir vegna mikillar fjölgunar Covid-19 tilvika í ríkinu.

Heilbrigðisyfirvöld í Los Angeles óttast að dagleg dauðsföll á svæðinu af völdum sjúkdómsins nái þúsund á næstunni. Sjúkrahús eru þegar yfirfull.

Alls greindust 9.142 einstaklingar með Covid-19 í Los Angeles-sýslu á mánudag. Ástandið er hvergi verra í Bandaríkjunum en 818 þúsund íbúa hafa smitast og 10.700 látið lífið.

Á sjúkrahúsum í Kaliforníu hafa menn þegar neyðst til að grípa til þess að sinna sjúklingum í gjafaverslunum, á bílastæðum og í tjöldum. Þá bíða sjúkrabifreiðar í röðum fyrir utan, oft í margar klukkustundir.

Dodger-leikvangurinn er stærsti skimunarstaðurinn í Bandaríkjunum og hefur tekið á móti meira en milljón manns síðan faraldurinn hófst.epa/Etienne Laurent

Að sögn Marianne Gausche-Hill, framkvæmdastjóra stofnunarinnar sem hefur umsjón með viðbragðsaðilum í Los Angeles-sýslu, munu bráðaliðar áfram gera allt til að bjarga lífi fólks á vettvangi.

Munurinn sé sá að nú sé ekki mælst til þess að sjúklingar séu fluttir á sjúkrahús ef fyrsta hjálp á vettvangi hefur ekki skilað árangri. Það sé enda sjaldan sem takist að bjarga viðkomandi sjúklingum.

Hún bendir á að það auki lífslíkur sjúklinga sem hafa til dæmis fengið hjartaáfall eða heilablóðfall ef þeim er sinnt á vettvangi.

Á mánudag voru 2.800 Bandaríkjamenn lagðir inn vegna Covid-19 en talið er að alls liggi 128.210 sjúklingar inni með sjúkdóminn, þar af 23 þúsund á gjörgæsludeildum.

Í Kaliforníu hefur fjöldi inniliggjandi tvöfaldast á mánuði. Að sögn borgarstjóra Los Angeles verður þar eitt smit á hverjum sex sekúndum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.