Fjórir greindust með veiruna innanlands í gær en tekin voru á sjöunda hundrað sýni innanlands, að sögn Þórólfs.
„Tölurnar eru ánægjulegar. Allir fjórir í sóttkví og það er bara ánægjulegt,“ segir Þórólfur.
„En það er áfram að greinast á landamærunum og það er kannski áhyggjuefni að við förum að missa eitthvað inn í gegnum landamærin en við höfum náð að stöðva nánast allar sýkingar á landamærum. Þær hafa ekki náð útbreiðslu og vonum svo sannarlega að það haldi áfram.“
Útgöngubann tekur gildi á Englandi í dag, þar sem nýtt afbrigði veirunnar hefur valdið mikilli uppsveiflu í faraldrinum. Þá er staðan einnig slæm víða á Norðurlöndum, þar sem harðar sóttvarnaaðgerðir hafa verið innleiddar síðustu daga og vikur. Þórólfur bendir á að staða faraldursins í útlöndum sé víða slæm.
„Og við munum sjá það í aukningu á smitum á landamærunum,“ segir Þórólfur.