Innlent

Manndrápsmál fellt niður vegna andláts ákærða

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mál mannsins var til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjaness.
Mál mannsins var til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjaness. Vísir/Vilhelm

Manndrápsmál á hendur karlmanni um þrítugt sem ákærður var fyrir að myrða móður sína og stinga sambýlismann hennar í Hafnarfirði í apríl í fyrra verður formlega fellt niður í Héraðsdómi Reykjaness á næstunni. Ástæðan er sú að ákærði er látinn.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfestir þetta við Fréttablaðið. Ákærði í málinu svipti sig lífi á réttargeðdeild Landspítalans á jóladag. Maðurinn var talinn í bráðri sjálfsvígshættu og því á svokallaðri sólarhringsvöktun á sjálfsvígsgát á réttargeðdeild Landspítalans.

Sjálfsvígið er á borði lögreglunnar en fenginn verður óháður aðili innan Landspítalans til að fara yfir verkferla.

Karlmaðurinn sætti ákæru fyrir að hafa banað móður sinni með tveimur hnífsstungum í brjóst og sömuleiðis fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Þá sætti hann ákæru fyrir stórfelld umferðarlagabrot þar sem hann keyrði meðal annars á tæplega 200 kílómetra hraða um höfuðborgina með lögreglu á eftir sér.

Málið hafði ekki fengið meðferð fyrir dómi en beðið var eftir sakhæfismati í máli karlmannsins þegar hann svipti sig lífi á jóladag.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×