Innlent

Lyfja­notkun ekki lengur frá­gangs­sök í lögreglunáminu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ólafía hóf störf hjá lögreglunni í Reykjanesbæ í febrúar 2019 en henni var synjað um inngöngu í lögreglufræðanámið sama ár og aftur 2020.
Ólafía hóf störf hjá lögreglunni í Reykjanesbæ í febrúar 2019 en henni var synjað um inngöngu í lögreglufræðanámið sama ár og aftur 2020.

Notkun lyfseðilsskyldra lyfja verður ekki lengur útilokandi þáttur við inntöku í starfsnám í lögreglufræðum hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar. Þetta kemur fram í tölvupósti frá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra til Ólafíu Kristínar Norðfjörð, sem hefur tvívegis verið neitað um námið sökum þess að hún tekur kvíða- og þunglyndislyfið Sertral.

Á sama tíma hefur Ólafía starfað sem lögreglumaður í Reykjanesbæ, þar sem hún nýtur mikils stuðnings kollega sinna.

Samkvæmt póstinum verður inntökuferlinu einnig breytt á þann veg að umsækjendur munu þreyta þrekpróf og fara í gegnum annan undirbúning áður en þeir gangast undir læknisskoðun og sálfræðimat, ef þess er þörf. 

Hingað til hefur ákvörðun trúnaðarlæknis um vanhæfi, meðal annars sökum lyfjanotkunar, komið í veg fyrir að umsækjendur fá að spreyta sig í öðrum þáttum inntökuferlisins.

„Ég er mjög ánægð með þetta,“ segir Ólafía en henni barst tölvupósturinn frá ráðherra 30. desember sl. í kjölfar fundar í september. 

Ólafía hefur áður greint frá reynslu sinni á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum en hún segist hafa mætt miklum fordómum vegna lyfjanotkunar sinnar, ekki síst af hálfu trúnaðarlæknis MSL.

Var ráðlagt að hætta á lyfinu

Forsagan er sú að Ólafía sótti fyrst um að komast í lögreglunámið fyrir haustönnina 2019 en fékk höfnun sökum þess að hún tekur Sertral, sem inniheldur virka efnið sertralín. 

Árið 2018 var sertralín í nítjánda sæti yfir 30 mest ávísuðu lyfin á Íslandi en það árið fengu 4,1 prósent þjóðarinnar ávísað lyfjum sem innihéldu efnið.

Ári seinna var efnið komið í sextánda sæti og 4,3 prósent þjóðarinnar fengu því ávísað.

Ólafía sagði frá því í Mannlífi að trúnaðarlæknir MSL hefði ráðlagt henni að hætta á lyfinu; þá gæti hún fengið inngöngu í námið ári seinna. 

Samkvæmt leiðbeiningum frá MSL árið 2019 sagði að einstaklingar sem þörfnuðust meðferðar með lyfjum sem hefðu sefjandi áhrif á miðtaugakerfið uppfylltu ekki skilyrði um heilbrigðiskröfur fyrir starfsnám.

Árið 2020, eftir að Ólafía greindi frá reynslu sinni, var eftirfarandi texta bætt við:

„Krafist er að umsækjendur sem hafa þurft meðferð með kvíðastillandi lyfjum, þunglyndislyfjum eða ADHD lyfjum hafi verið án slíkra lyfja í 12 mánuði áður en umsókn er metin.“

Hitti aldrei lækninn sem réði því að hún komst ekki inn

Þegar Ólafía greindi frá synjuninni á Facebook árið 2019 sendu samtökin Geðhjálp frá sér yfirlýsingu þar sem þau áréttuðu að það að leita sér aðstoðar vegna geðrænna áskorana ætti og mætti aldrei nota gegn fólki. Þá hvöttu samtökin alla til að láta af mismunun í garð fólks sem byggi við frávik frá hinu „síflöktandi normi“. 

Það væri fagnaðarefni að fólk leitaði sér aðstoðar.

Landlæknisembætti sagði við sama tilefni að ákvörðun í hverju tilviki hlyti að taka tillit til ráðlegginga læknis sem þekkti til þess er málið varðaði en þess ber að geta að Ólafía fékk aldrei að hitta trúnaðarlækni MSL. 

Þá gat hún ekki uppfyllt kröfu MSL um að skila inn umsögn frá sérfræðilækni, þar sem hún fékk lyfinu ávísað hjá heimilislækni, líkt og fjölmargir Íslendingar.



Fær loks að sanna sig

„Það er svo mikil þversögn í þessu því í lögregluskólanum er talað um að lögreglumenn eigi að leita sér sálfræðiaðstoðar og að við eigum að geta talað um hlutina og talað við hvort annað og að við eigum ekki að fela neitt,“ sagði Ólafía við Mannlíf í desember 2019.

Þrátt fyrir gagnrýni frá Geðhjálp og heilbrigðisstarfsmönnum og yfirlýsingar ráðherra, sem sagðist á Facebook myndu beina því til ríkislögreglustjóra að skoða umrædd viðmið, breyttist ekkert og Ólafía fékk aftur höfnun í fyrra.

Hún segist vita til þess að menn hafi hætt við að sækja um námið sökum þess að þeir taka lyf og veigrað sér við að tala um andlega erfiðleika vegna fordóma. Ólafía ítrekar hins vegar að hún hafi ávallt notið mikils stuðnings á vinnustað sínum.

„Ég mætti litlum sem engum skilningi fyrr en ég settist niður með Áslaugu Örnu og hennar teymi. Þá fannst mér boltinn fara að rúlla,“ segir hún. „Mig langaði á tímabili að gefast upp og hugsaði að ég fengi aldrei að mennta mig sem lögreglumaður en mér fannst ég bara ekki getað látið aðra ráða því.“

Eftir langa og stranga baráttu fái hún loksins tækifæri til að spreyta sig og freista þess að standast aðra þætti inntökuferlisins. Það sé ekki sjálfgefið að hún komist inn.

„En nú fæ ég alla vegna að sýna hvað í mér býr.“


Tengdar fréttir

Sérfræðiaðstoð firrir stjórnvöld ekki ábyrgð

Settur umboðsmaður Alþingis hefur beint því til mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar að taka mál til meðferðar að nýju, sökum þess að trúnaðarlæknir sem skilaði umsögn um umsókn manns um starfsnám svaraði ekki erindum mannsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×