Erlent

Lögregla birtir upptökur af „tæklingunni“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot úr upptöku úr öryggismyndavél má sjá til hægri. Skjáskot úr myndbandi föður piltsins, sem birt var milli jóla og nýárs, er til vinstri.
Skjáskot úr upptöku úr öryggismyndavél má sjá til hægri. Skjáskot úr myndbandi föður piltsins, sem birt var milli jóla og nýárs, er til vinstri.

Yfirmaður rannsóknardeildar hjá lögreglu í New York hefur birt upptökur úr öryggismyndavélum, sem sýna árás hvítrar konu á svartan unglingspilt. Konan réðst á drenginn eftir að hafa sakað hann ranglega um að stela síma hennar. Málið vakti mikla reiði vestanhafs.

Árásin var gerð í móttöku hótels í New York 26. desember síðastliðinn. Rodney Harrison, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglu í borginni, segir í tísti sem hann birti á gamlársdag að konan hafi ranglega sakað „saklausan 14 ára ungling“ um stuld á téðum farsíma.

„Hún réðst því næst á hann og flúði vettvang áður en lögregla kom á staðinn,“ segir Harrison í færslunni, hvar hann birtir upptökur úr öryggismyndavélum sem sýna árásina. Hann biður almenning um aðstoð við að komast að því hvar konan, sem lögregla hefur borið kennsl á, er niðurkomin.

Á upptökunum sést hvernig konan veitist að piltinum og eltir hann. Hún virðist líka henda sér á hann, hálfpartinn „tækla“ hann, svo þau falla að endingu bæði í gólfið. Þá sést einnig hvernig aðrir reyna að skerast í leikinn.

 Tíst Harrisons ásamt upptökunum má sjá hér fyrir neðan.

Málið vakti mikla athygli eftir að faðir drengsins, tónlistarmaðurinn Keyon Harrold, birti myndband sem hann tók sjálfur upp af árásinni á Instagram. Hann, auk margra á samfélagsmiðlum, taldi ásakanir konunnar og árásina í kjölfarið til marks um kerfisbundna kynþáttahyggju. Konan hefði sakað piltinn um stuldinn á grundvelli húðlitar hans.

Sími konunnar kom á endanum í leitirnar en hann var ekki í fórum piltsins. Svo virðist sem konan hafi gleymt honum í Uber-leigubíl en fjölmiðlar hafa greint frá því að bílstjórinn hafi komið með símann skömmu eftir atvikið.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Reiði á samfélagsmiðlum vegna ofsafenginna ásakana „Karenar“

Mikil reiði hefur gripið um sig á samfélagsmiðlum vestanhafs eftir að tónlistarmaður birti myndband á Instagram-reikningi sínum, sem hann segir sýna konu ráðast á fjórtán ára son hans á hóteli í New York. Konan hafi ranglega sakað son hans um að hafa stolið síma hennar. Atvikið hefur verið sagt birtingarmynd kynþáttafordóma en feðgarnir eru svartir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×