Árásin var gerð í móttöku hótels í New York 26. desember síðastliðinn. Rodney Harrison, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglu í borginni, segir í tísti sem hann birti á gamlársdag að konan hafi ranglega sakað „saklausan 14 ára ungling“ um stuld á téðum farsíma.
„Hún réðst því næst á hann og flúði vettvang áður en lögregla kom á staðinn,“ segir Harrison í færslunni, hvar hann birtir upptökur úr öryggismyndavélum sem sýna árásina. Hann biður almenning um aðstoð við að komast að því hvar konan, sem lögregla hefur borið kennsl á, er niðurkomin.
Á upptökunum sést hvernig konan veitist að piltinum og eltir hann. Hún virðist líka henda sér á hann, hálfpartinn „tækla“ hann, svo þau falla að endingu bæði í gólfið. Þá sést einnig hvernig aðrir reyna að skerast í leikinn.
Tíst Harrisons ásamt upptökunum má sjá hér fyrir neðan.
On Saturday, December 26, the woman in this video falsely accused an innocent 14-year-old teenager of stealing her cellphone. She then proceeded to physically attack him and fled the location before police officers arrived on scene. pic.twitter.com/qtZZWetBWH
— Chief Rodney Harrison (@NYPDDetectives) December 31, 2020
Málið vakti mikla athygli eftir að faðir drengsins, tónlistarmaðurinn Keyon Harrold, birti myndband sem hann tók sjálfur upp af árásinni á Instagram. Hann, auk margra á samfélagsmiðlum, taldi ásakanir konunnar og árásina í kjölfarið til marks um kerfisbundna kynþáttahyggju. Konan hefði sakað piltinn um stuldinn á grundvelli húðlitar hans.
Sími konunnar kom á endanum í leitirnar en hann var ekki í fórum piltsins. Svo virðist sem konan hafi gleymt honum í Uber-leigubíl en fjölmiðlar hafa greint frá því að bílstjórinn hafi komið með símann skömmu eftir atvikið.
Fréttin hefur verið uppfærð.