Lögsóknin beindist að Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna en að henni stóðu fulltrúadeildarþingmaðurinn Louie Gohmert og Repúblikanar í Arizona , sem höfðu lýst sig sem kjörmenn í ríkinu, þvert á niðurstöður forsetakosninganna í nóvember.
Flókið ferli
Þann 14. desember síðastliðinn greiddu 306 kjörmenn Joe Biden, frambjóðanda demókrata, atkvæði sitt og 232 kjörmenn greiddu Donald Trump, sitjandi forseta atkvæði sitt, í samræmi við úrslit kosninganna.
Þann 6. janúar munu báðar deildir Bandaríkjaþings koma saman til þess að staðfesta úrslit kosninganna. Í lögsókn Gohmert og félaga var því haldið fram að varaforsetinn hefði vald til þess að velja hvaða atkvæði hvaða kjörmanna væru tekin gild.
Pence lagðist gegn lögsókninni
Athygli vekur að embætti Pence hvatti dómarann til þess að hafna málinu á þeim grundvelli að það kæmi varaforsetanum ekki við, lögsóknin ætti að beinast gegn þinginu.

Í niðurstöðu dómarans þar sem lögsókninni var hafnað segir að ekki fáist sé að Gohmert og félagar hafi lagagrundvöll til þess að beina lögsókninni að varaforsetanum.
Trump-liðar hafa ítrekað staðhæft að umfangsmikið kosningasvindl hafi kostað Trump sigur í forsetakosningunum. Þeir hafa þó ekki getað sýnt fram á það fyrir dómstólum, þrátt fyrir fjölmargar tilraunir.