Enski boltinn

Ívar fór vel af stað með Ipswich

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ívar í leik með Reading á síðustu leiktíð.
Ívar í leik með Reading á síðustu leiktíð. Nordic Photos / Getty Images
Ívar Ingimarsson lék allan leikinn er Ipswich vann 3-0 sigur á Bristol City í fyrstu umferð ensku B-deildarinnar. Ívar gekk til liðs við Ipswich frá Reading fyrir tímabilið.

Michael Chopra skoraði tvö marka Ipswich í leiknum og Lee Martin eitt.

Hermann Hreiðarsson lék fyrstu 63 mínúturnar er Portsmouth gerði 2-2 jafntefli við Middlesbrough á útivelli í sömu deild.

Þá var Brynjar Björn Gunnarsson á bekknum og kom ekki við sögu er Reading gerði jafntefli, 2-2, við Millwall á heimavelli.

Ipswich var eina liðið sem vann með meira en eins marks mun í deildinni í dag en tveimur leikjum er enn ólokið í fyrstu umferðinni. Á morgun fara Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff og leika gegn West Ham, sem féll úr ensku úrvalsdeildinni í fyrra.

Southampton og Leeds mætast svo síðar í dag.

Þá hófst keppni í ensku C-deildinni í dag. Huddersfield, lið Jóhannesar Karls Guðjónssonar, gerði 1-1 jafntefli við Bury á heimavelli. Jóhannes Karl var ekki í leikmannahópi Huddersfield í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×