Erlent

Loftvarnaeldflaugar sendar til Tyrklands

Anders Fogh Rasmussen NATO hefur tekið vel í beiðni Tyrkja um Patriot-eldflaugar. MYND/NATO
Anders Fogh Rasmussen NATO hefur tekið vel í beiðni Tyrkja um Patriot-eldflaugar. MYND/NATO
Búizt er við að fundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem hefst í Brussel í dag samþykki að senda Tyrkjum Patriot-loftvarnaeldflaugar til að verjast hugsanlegum árásum frá Sýrlandi. „Þetta er eingöngu varnarviðbúnaður og getur á engan hátt stutt við flugbannssvæði yfir Sýrlandi eða neins konar árás,“ sagði Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, á fundi með blaðamönnum í höfuðstöðvum bandalagsins í gær. Hann undirstrikaði að NATO hefði engin áform um hernaðaríhlutun í Sýrlandi.

Tyrknesk stjórnvöld fóru fram á aðstoðina fyrir hálfum mánuði. Ástæðan er meðal annars vaxandi áhyggjur af að stjórn Assads Sýrlandsforseta grípi í örvæntingu til efnavopna gegn uppreisnarmönnum í landinu. Sýrlendingar eiga langdrægar eldflaugar sem geta borið efnavopn og Tyrkir óttast að þær gætu lent Tyrklandsmegin landamæranna, yrði þeim beitt.

Rasmussen sagði að Patriot-flaugarnar, sem eru hannaðar til að skjóta niður langdrægar eldflaugar, myndu styrkja loftvarnir Tyrklands og væru tákn um staðfestu og samstöðu NATO-ríkjanna. „Þetta snýst um að hjálpa aðildarríki að verja sig, þegar það stendur frammi fyrir skýrri ógn við landamærin,“ sagði framkvæmdastjórinn.

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varaði í gær stjórn Assads eindregið við því að nota efnavopnin. Hún sagði að með beitingu þeirra yrði farið yfir „rautt strik“ og Bandaríkin yrðu þá að bregðast við.

Gera má ráð fyrir að Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, geri athugasemd við Patriot-flaugarnar þegar hann kemur til fundar við NATO-ráðherrana í dag. Rússar hafa sagt þær munu auka spennu á svæðinu. Rasmussen leggur áherzlu á hið gagnstæða; að fælingarmáttur flauganna muni draga úr spennu við landamæri Sýrlands og Tyrklands vegna þess að engum detti þá í hug að skjóta eldflaugum á Tyrkland.

Framkvæmdastjóri NATO segir að Rússar hafi fengið að fylgjast með hverju skrefi málsins. „Innan við tveimur sólarhringum eftir að formleg beiðni um Patriot-flaugarnar barst, hringdi ég í Lavrov og útskýrði fyrir honum hvað þetta er og hvað það er ekki,“ sagði Rasmussen.

Bandaríkin, Þýzkaland og Holland eru aflögufær um Patriot-flaugar og munu væntanlega senda nokkur hundruð hermenn með þeim til Tyrklands. Uppsetning flauganna tekur einhverjar vikur.

olafur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×