Fótbolti

Þær banda­rísku töpuðu í jafn­launa­málinu

Sindri Sverrisson skrifar
Besta kvennalandslið heims hefur staðið í langri og erfiðri deilu við knattspyrnusambandið sitt.
Besta kvennalandslið heims hefur staðið í langri og erfiðri deilu við knattspyrnusambandið sitt. VÍSIR/GETTY

Landsliðskonur Bandaríkjanna í fótbolta hafa hug á að áfrýja eftir að dómari í Kaliforníu úrskurðaði bandaríska knattspyrnusambandinu í vil í jafnlaunamálinu svokallaða.

Bandaríska kvennalandsliðið, sem er ríkjandi heimsmeistari, telur knattspyrnusambandið hafa brotið á sér með því að greiða leikmönnum ekki laun í samræmi við launin sem leikmenn karlalandsliðsins fái, auk þess að veita kvennalandsliðinu ekki sama aðbúnað.

Dómari vísaði málinu frá. Samkvæmt niðurstöðunni hefur kvennalandsliðið fengið hærri laun greidd en karlarnir, hvort sem horft er til samanlagðra tekna eða launa fyrir hvern leik. Þá taldi dómarinn ekki nægar sannanir fyrir því að kvennalandsliðið nyti ekki sams konar aðbúnaðar og karlalandsliðið.

Í niðurstöðunni segir að það hafi verið ákvörðun kvennalandsliðsins að fá frekar öruggar tekjur en að binda tekjurnar við leiki sem spilaðir væru. Árið 2017 var samið um að 20 leikmenn kvennalandsliðsins fengju 100.000 Bandaríkjadali í laun á ári, auk bónusgreiðsla fyrir vináttulandsleiki. Þannig sé ekki hægt að dæma um það núna að landsliðskonurnar hafi fengið lægri laun vegna þess hvað þær hefðu fengið hefðu þær gert samning sem miðaði við fjölda spilaðra leikja eins og karlarnir.

Molly Levinson, talskona kvennalandsliðsins, sagði að stefnan væri að áfrýja niðurstöðunni.

„Við erum í áfalli og vonsvikin yfir niðurstöðunni en við munum ekki gefast upp í erfiðri baráttu fyrir jöfnum launum,“ sagði Levinson. „Við erum örugg með okkar mál og staðföst í því að sjá til þess að stelpur og konur sem keppi í íþróttum verði ekki minna metnar bara vegna kyns þeirra,“ sagði Levinson í yfirlýsingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×