Fótbolti

Segja knattspyrnukonurnar vera eftirbátar karlanna í leikni og ábyrgð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Megan Rapinoe vakti mikla athygli innan vallar sem utan. Hún varð heimsmeistari með Bandaríkjunum, best og markahæst á HM, pirraði Donald Trump Bandaríkjaforseta og fékk svo Gullboltann í lok árs.
Megan Rapinoe vakti mikla athygli innan vallar sem utan. Hún varð heimsmeistari með Bandaríkjunum, best og markahæst á HM, pirraði Donald Trump Bandaríkjaforseta og fékk svo Gullboltann í lok árs. vísir/getty

Barátta bandaríska knattspyrnusambandsins gegn því að greiða landsliðskonum sínum jafnmikið og landsliðskörlunum er farin að vera ansi vandræðaleg.

Bandarísku landsliðskonurnar stefndu sambandinu sínu til að ná fram kynjajafnrétti í launagreiðslum en hafa fengið harða og ódrengilega mótstöðu. Nýjasta útspilið er dæmi um það.

Bandaríska knattspyrnusambandið, The U.S. Soccer Federation, sendi frá sér ný rök í gær fyrir því af hverju sambandið er ekki tilbúið að greiða konunum sömu bónusa og körlunum.

Þar kemur fram að ástæðan fyrir mismunandi launum kynjanna er að bandaríska sambandið segir að knattspyrnukonurnar séu eftirbátar karlanna hvað varðar leikni og ábyrgð.

Bandaríska sambandið heldur því þannig fram að störf landsliðskarlanna og landsliðskvennannan séu ekki sambærileg af því að knattspyrnukarlarnir séu sterkari og fljótari.

Sambandið er einnig á því að leikmenn karlalandsliðsins hafi meiri ábyrgð varandi orðspor bandaríska sambandsins út á við.

Þar kemur líka fram að karlalandsliðið taki þátt í fleiri keppnum og eigi möguleika á því að vinna hærra verðlaunafé á heimsmeistaramóti sem dæmi.

Það þarf ekki að koma mikið á óvart að þetta nýjasta útspil bandaríska sambandsins hafi hneykslað marga og knattspyrnukonurnar voru líka fljótar að skjóta þetta niður.

„Þessi fáránlega röksemdafærsla á heima á steinöld. Þetta hljómar eins og þetta hafi verið samið af steinaldarmanni,“ sagði í yfirlýsingu Molly Levinson, talskonu landsliðskvennanna en hún kallaði hana líka hreina og klára kynjamismunun.

Það er líka ljóst að þessi rök bandaríska knattspyrnusambandsins hafa líka farið mjög illa í marga styrktaraðila sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×