Erlent

Ekki samið við Talíbana um frelsun Suður-Kóresku gíslana

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mynd/ AFP

George Bush Bandaríkjaforseti og Hamid Karzai forseti Afganistans hafa ákveðið að semja ekki við Talíbana um frelsun Suður-Kóresku gíslana, samkvæmt upplýsingum sem Breska ríkisútvarpið hefur eftir talsmanni í Hvíta húsinu.

Talsmenn Talíbana segja að framtíð gíslanna sé í höndum leiðtoganna tveggja og vilja að talíbanskir fangar verði látnir lausir úr fangelsum í Afganistan gegn því að gíslunum verði sleppt.

Tuttugu og einn gísl er í haldi Talíbana og hafa tveir verið drepnir. Fólkinu var rænt 19 júlí þegar það var á ferð í rútu um borgina Ghazni.Talsmaður Hvíta hússins segir hins vegar að Talíbanar myndu halda áfram mannránum þrátt fyrir að samið yrði við þá.

Talsmaður Suður-Kóreu forseta segir að ríkisstjórnin þar í landi vilji vinna óháð Bush og Karzai að frelsun gíslanna. Hundrað manns komu saman nærri bandaríska sendiráðinu í Seoul í dag til að koma á framfæri kröfum til Bush Bandaríkjaforseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×