Erlent

Kanada bannar hríðskotavopn eftir versta fjöldamorð í sögu landsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Trudeau forsætisráðherra tilkynnti um bannið í dag. Myndin er úr safni.
Trudeau forsætisráðherra tilkynnti um bannið í dag. Myndin er úr safni. AP/Sean Kilpatrick/The Canadian Press

Sala á hríðskotarifflum verður bönnuð í Kanada í kjölfar mannskæðustu skotárásar í sögu landsins fyrir tveimur vikum. Justin Trudeau, forsætisráðherra, kynnti bannið í dag og sagði vopn að þessu tagi aðeins hönnuð til að drepa eins margt fólk og hægt er á sem skemmstum tíma.

Vopnaður maður skaut 22 manns til bana á Nova Scotia-fylki fyrir tæpum tveimur vikum. Hann notaði meðal annars hríðskotariffil við ódæðið.

„Það eru engin not og enginn staður fyrir slík vopn í Kanada,“ sagði Trudeau þegar hann kynnti bannið. Vísaði hann einnig til þess þegar karlmaður sem var haldinn hatri á femínisma skaut fjórtán konur til bana í Montreal árið 1989.

Bannið mun náð til kaupa, sölu, flutnings, innflutnings og notkunar tiltekin hríðskotavopn. Það tekur gildi strax með reglugerðarbreytingu ríkisstjórnarinnar, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Þeir sem eiga vopn af þessu tagi fá tvö ár til að losa sig við þau. Trudeau sagði að þeim yrði bættur skaðinn.

Skoðanakönnun sem birtist í dag sýndi 78% stuðning við bann á hríðskotavopn. Engu að síður fordæmdi Andrew Scheer, leiðtogi Íhaldsflokksins, helsta stjórnarandstöðuflokks landsins, bannið. Fullyrti hann að bannið væri óskilvirkt og að það refsaði löghlýðnum borgurum.

„Mikill meirihluti byssuglæpa er framinn með illa fengnum skotvopnum. Ekkert af því sem Frjálslyndi flokkur Trudeau kynnti í dag tekur á því vandamáli,“ sagði Scheer.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×