Erlent

Norskur fjöl­skyldu­faðir í 20 ára fangelsi fyrir „hreina af­töku“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Oscar André Ocampo Overn var ættleiddur frá Kólumbíu sem barn. Hann er transpiltur og fæddist þannig í líkama stúlku en lét breyta nafni sínu í þjóðskrá árið 2018.
Oscar André Ocampo Overn var ættleiddur frá Kólumbíu sem barn. Hann er transpiltur og fæddist þannig í líkama stúlku en lét breyta nafni sínu í þjóðskrá árið 2018.

Norskur fjölskyldufaðir á fimmtugsaldri, Hans Olav Overn, var í dag dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir að kyrkja fimmtán ára son sinn, Oscar André Ocampo Overn, á heimili fjölskyldunnar í Kapp í október í fyrra. Samkvæmt dómi sá Hans Olav fram á að kynferðisbrot hans gegn syninum um árabil yrðu fyrr en síðar dregin fram í dagsljósið og hann þess vegna ákveðið að myrða hann.

Saksóknari fór fram á þyngstu refsingu yfir föðurnum, eða 21 ár, og kallaði verknaðinn „hreina aftöku“. Dómurinn féllst á þá lýsingu saksóknara og sagði morðið á drengnum hafa verið þaulskipulagt.

Málið þykir einkar ógeðfellt. Í dómi segir að faðirinn hafi ráðist á varnarlausan einstakling og þá sé ljóst að Oscar hafi verið logandi hræddur á meðan faðir hans, sem misnotaði hann kynferðislega um árabil, herti að hálsi hans. Faðirinn er sagður hafa ætlað að fremja sjálfsvíg að loknu voðaverkinu en hætti við og gaf sig fram við lögreglu.

Þá er talið sannað að faðirinn hafi framið morðið að yfirlögðu ráði. Hann gætti þess að loka móður Oscars inni í svefnherbergi áður en hann lét til skarar skríða. Móðirin heyrði þannig þegar lífið var murkað úr syni hennar í næsta herbergi.

Í frétt NRK af málinu segir að faðirinn hafi verið samvinnuþýður lögreglu og refsing hans hafi þess vegna verið milduð um eitt ár. Hann hlaut þannig að endingu tuttugu ára dóm, líkt og áður segir. Dómnum verður ekki áfrýjað.

Oscar var transpiltur og var ættleiddur frá Kólumbíu sem barn. Hann fæddist þannig í líkama stúlku en lét breyta nafni sínu í þjóðskrá í janúar 2018.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á hjálparsíma Rauða krossins 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×