Enski boltinn

Borgarstjóri Liverpool óttast stórslys fái Liverpool að tryggja sér titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningmenn Liverpool gætu búið til stór vandamál í borginni ef þeir safnast þúsundir saman til þess að fagna Englandsmeistaratitlinum.
Stuðningmenn Liverpool gætu búið til stór vandamál í borginni ef þeir safnast þúsundir saman til þess að fagna Englandsmeistaratitlinum. Getty/Laurence Griffiths

Joe Anderson er borgarstjóri í Liverpool og hann vill að tímabili í ensku úrvalsdeildinni veðir flautað af því hann óttast stórslys ef tímabilið verður klárað.

Liverpool liðið þarf bara tvo sigra í viðbót til að tryggja sér fyrsta Englandsmeistaratitilinn í þrjá áratugi.

Liverpool á mjög ákafa og blóðheita stuðningsmenn sem eru margir búnir að bíða mjög lengi eftir því að liðið vinni ensku úrvalsdeildina í fyrsta sinn og fyrsta Englandsmeistaratitilinn frá 1990.

Það mun því verða mjög erfitt fyrir lögregluna í Liverpool að koma í veg fyrir að stuðningsmenn Liverpool hrúgist út á götur borgarinnar til að fagna með allri þeirri smithættu sem því fylgir.

„Þótt að það spilað verði á hlutlausum velli þá mun fjöldi fólks streyma að Anfield til að fagna og ég skil vel að lögreglan óttist að sú staða komi upp. Við erum því með vanda á okkar höndum. Við eigum nógu erfitt með að koma í veg fyrir að fólk, þá sérstaklega ungt fólk, hópist saman í góðu veðri í almenningsgörðum," sagði Joe Anderson við breska ríkisútvarpið.

„Best væri bara að aflýsa tímabilinu. Þetta snýst ekki bara um Liverpool, en liðið er klár­lega búið að vinna deildina og ætti að vera krýndur enskur meistari. Það sem mestu máli skiptir er heilsa og öryggi fólks og fótboltinn á alltaf að vera í öðru sæti þegar við veljum þar á milli," sagði Anderson.

Það fylgir sögunni að Joe Anderson er stuðningsmaður Everton, erkifjenda og nágranna Liverpool FC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×