Erlent

Stefna á að prófa 100 þúsund á dag fyrir veirunni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Á mánudag voru tekin 43 þúsund sýni til að prófa fyrir kórónuveirunni í Bretlandi.
Á mánudag voru tekin 43 þúsund sýni til að prófa fyrir kórónuveirunni í Bretlandi. Vísir/EPA

Bresk stjórnvöld hafa nú slakað á kröfum um hverjir geta fengið að láta prófa sig fyrir kórónuveirunni sem valdið getur sjúkdómnum Covid-19. Stefnt er á að frá og með morgundeginum verði um hundrað þúsund manns prófaðir á dag.

Á fimmtudag greindu stjórnvöld frá því að allt framlínustarfsfólk í Bretlandi, þar á meðal allt heilbrigðisstarfsfólk, stór hluti opinberra starfsmanna og starfsfólk sem kemur að því að viðhalda fæðuöryggi í landinu, kæmi til með að geta farið í sýnatöku. Nú hefur starfsfólki hjúkrunarheimila, öllum sem ekki geta unnið heiman frá og fólki yfir 65 ára verið bætt á lista yfir þá sem eiga rétt á sýnatöku. 

Þá munu allir sem sýna einkenni kórónuveirunnar, og búa með einhverjum sem á rétt á sýnatöku, einnig geta farið í sýnatöku.

Samkvæmt breska ríkisútvarpinu fóru fram rétt rúmlega 43 þúsund sýnatökur síðastliðinn mánudag, en stefnt er að því að frá og með morgundeginum verði hægt að prófa hundrað þúsund manns á dag.

Öll sem eiga rétt á sýnatöku geta bókað tíma í slíkt á þar til gerðri vefsíðu sem bresk stjórnvöld halda úti.

„Frá byggingaverkamönnum til neyðarpípara, frá vísindamönnum við rannsóknir til framleiðslustarfsmanna, útvíkkun aðgangs að prófum mun vernda viðkvæmustu hópa og hjálpa til við að halda fólki öruggu,“ sagði Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, á síðasta upplýsingafundi um kórónuveiruna.

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands.Vísir/EPA

Uppfæra tölur um dauðsföll

Stjórnvöld í Bretlandi vinna nú að því að uppfæra opinberar tölur um dauðsföll af völdum Covid-19 í Bretlandi. Aðallega er unnið að því að koma tölum yfir dauðsföll inni á hjúkrunarheimilum inn í opinberu tölurnar, sem hingað til hafa nánast eingöngu náð til dauðsfalla inni á sjúkrahúsum.

Tölur frá Tölfræðiskrifstofu Bretlands hafa sýnt að um þriðjungur allra dauðsfalla af völdum veirunnar í Englandi og Wales eiga sér nú stað á hjúkrunarheimilum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×