Lík, sem talið er vera af hinni bresku Catherine Shaw, fannst í Gvatemala í gær. Blásið var til umfangsmikillar leitar að Shaw, sem er 23 ára, fyrr í mánuðinum en ekkert hafði spurst til hennar síðan hún gekk út af hóteli sínu við Atitlan-vatn þann 5. mars síðastliðinn.
Lögregla í Gvatemala tilkynnti í gær að leitarflokkar hefðu fundið lík við San Juan La Laguna í suðurhluta landsins. Samkvæmt frétt BBC hafa ekki verið borin formleg kennsl á líkið en fjölskylda Shaw hefur verið látin vita af fundinum. Líkið fannst eftir að leitarmenn gengu fram á jakka í eigu Shaw en áður hafði hvolpur, sem hún tók með sér af hótelinu, fundist í grenndinni.
Í yfirlýsingu frá Lucie Blackman-sjóðnum, breskum samtökum sem halda skrá yfir týnda ferðamenn erlendis, segir að líkið sé talið vera af Shaw. Samtökin höfðu aðstoðað foreldra Shaw í Bretlandi við leitina að henni úti í Gvatemala.
Shaw hóf ferðalag sitt í september árið 2018. Hún hafði dvalið með vini sínum í Gvatemala í tvær vikur en hafði áður ferðast um Mexíkó og Kaliforníu.
Telja sig hafa fundið lík bresks ferðamanns í Gvatemala
Kristín Ólafsdóttir skrifar
