Fótbolti

Liverpool frestar stækkun Anfield

Sindri Sverrisson skrifar
Anfield stendur auður þessa dagana vegna kórónuveirufaraldursins.
Anfield stendur auður þessa dagana vegna kórónuveirufaraldursins. VÍSIR/GETTY

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur ákveðið að fresta því um eitt ár að hefja vinnu við að stækka heimaleikvang sinn í 61.000 sæti.

Til stóð að hefja vinnu í desember næstkomandi en stækka á Anfield Road stúkuna og er talið að vinnan taki 18 mánuði. Stúkan átti því að vera klár sumarið 2022 en verður nú tilbúin 2023 ef áætlanir ganga eftir.

„Við höfum lent í talsverðum töfum á verkefninu sem skrifast á útgöngubannið vegna Covid-19. Í ljósi þeirra áskorana sem ýmsar atvinnugreinar standa frammi fyri, til að mynda í byggingariðnaði og opinbera geiranum, þá tökum við þá ábyrgðu afstöðu að fresta verkefninu um að minnsta kosti 12 mánuði,“ sagði Andy Hughes, umsjónarmaður framkvæmda hjá Liverpool. Sagði hann ljóst að tvö sumur þyrfti til að klára verkefnið og því yrði stúkan ekki klár fyrr en í fyrsta lagi árið 2023. Tíminn sem nú gæfist yrði nýttur til að fara aftur yfir stöðuna og vega og meta valkosti varðandi framkvæmdirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×