Innlent

Spá sláandi atvinnuleysistölum við Mývatn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá Mývatnssveit
Frá Mývatnssveit vísir/vilhelm

Forsvarsmenn Skútustaðahrepps gera ráð fyrir að atvinnuleysi í sveitarfélaginu verði 30 prósent í þessum mánuði. Sveitarfélagið treystir mjög á tekjur vegna ferðaþjónustu við Mývatn. Dekksta sviðsmyndin gerir ráð fyrir 30 prósenta heildartekjumissi sveitarfélagsins.

Mývatn er ein helsta náttúruperla landsins og þangað sækir, í venjulegu árferði, mikill fjöldi ferðamanna á ári hverju. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að margir erlendir ferðamenn láti sjá sig þetta árið, vegna kórónuveirufaraldursins.

Í fundargerð síðasta fundar sveitarstjórnarinnar kemur fram að öll hótel og stærri gististaðir verði lokaðir út maí og sumir jafnvel til haustsins sem sé verri staða en áætluð hafi verið áður. 

„Áætlað atvinnuleysi í apríl er sláandi og hefur hækkað samkvæmt fyrri spá úr 24,5% í 30%. Til samanburðar var atvinnuleysi 3,7% í mars í fyrra og 3,4% í apríl,“ segir í fundargerðinni.

Þetta geri það að verkum að bjartsýnasta spá næstu níu mánuðina þýði að stöðugildum hjá rekstraraðilum í Mývatnssveit fækki um 100 næstu níu mánuði. Það myndi þýða 65 milljón króna tekjusamdrátt hjá sveitarfélaginu.

Dregnar eru upp tvær aðrar sviðsmyndir sem gera annnars vegar ráð fyrir 35 prósent samdrætti sem þýði fækkun um 175 stöðugildi, 35 prósent samdrátt og tekjumissi upp á 114 milljónir króna. Hins vegar gerir dekksta sviðsmyndin ráð fyrir fækkun um 200 stöðugildi, 50 prósent samdrátt og 163 milljón króna samdrátt „eða alls 27% heildartekjumissi hjá sveitarfélaginu sem er gríðarlega mikið högg fyrir reksturinn.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×