Innlent

„Við ætlum ekki að skilja fólk eftir bara því það átti einhvern afmælisdag“

Sylvía Hall skrifar
Þórunn Sveinbjörnsdóttir segir sjötíu ára viðmið vera skýra aldursmismunun.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir segir sjötíu ára viðmið vera skýra aldursmismunun. Vísir

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir nokkur hundruð eldri borgara lenda í því að geta ekki nýtt sér hlutabótaúrræði ríkisstjórnarinnar. Úrræðið er í boði fyrir fólk á aldrinum 18 til 70 ára en þeir sem eru eldri en það og fara á skert starfshlutfall eiga ekki kost á því að nýta úrræðið.

„Það er náttúrulega bara eins og við vitum að sjötíu ára regla er svo víða til. Við köllum hana bara aldursmismunun,“ sagði Þórunn í samtali við Reykjavík síðdegis í dag. Í gangi sé þingsályktunartillaga sem stefni að því að afnema sjötíu ára aldursmörk til starfa.

„Við náttúrulega styðjum það, við höfum barist fyrir því lengi að afnema þetta því það eru svo markir frískir sem vilja vinna lengur. Það á ekki að merkja kennitöluna okkar þannig að við séum einhver annar hópur bara af því við eigum afmælisdag.“

Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar, sagði í dag að hún teldi rétt að tillit yrði tekið til þessa hóps. Hún hafi því sent póst á velferðarnefnd og óskað eftir stuðningi við breytingartillögu á þessu ákvæði, þar sem um skýrt réttlætismál væri að ræða.

Þórunn segist fagna því mjög, enda sé um úrelt viðmið að ræða. Meðalaldur hafi farið hækkandi undanfarna áratugi og því beri að taka mið af því.

„Fólk er bara frískara. Ég er ekki að segja að allir eigi endilega að vinna, það er bara hvers og eins að meta það.“

Hún segist vera vongóð um að þessu verði breytt. Það sé það eina í stöðunni, enda væri mikilvægt að standa saman og skilja ekki fólk eftir.

„Ég á von á að þegar allir leggjast á eitt, að þá verði þessu keppt í liðinn – ég hef enga trú á öðru. Það er bara samkennd í samfélaginu og við ætlum ekki að skilja fólk eftir bara því það átti einhvern afmælisdag.“


Tengdar fréttir

Tvöfalt fleiri umsóknir á einum mánuði en allt árið í fyrra

Vinnumálastofnun bárust um 32.000 umsóknir um greiðslur í mars, um tvöfalt fleiri en allt árið í fyrra. Forstjóri stofnunarinnar segist aldrei hafa horft upp á annað eins og biður fólk um að hafa skilning á miklu álagi sem er á starfsmönnum hennar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×