Enski boltinn

Mancini ánægður með Balotelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini segist vera afar ánægður með Mario Balotelli og gefur lítið fyrir sögusagnir um að hann sé á leið frá Manchester City.

Mancini reiddist Balotelli mjög á æfingu á dögunum þegar sá síðarnefndi sparkaði liðsfélaga sinn niður. En Mancini gerði lítið úr atvikinu í viðtölum við fjölmiðla.

Forráðamenn Inter segjast vera með forkaupsrétt á Balotelli ákveði félagið að selja hann en Mancini segist að það muni ekki koma til þess. Balotelli hefur verið orðaður við AC Milan og önnur félög.

„Nei, það er ekkert til í þessu. Ég er mjög ánægður með Mario," sagði Mancini.

Balotelli spilaði heldur óvænt með U-21 liði City í vikunni og var þá búinn að lita hárið sitt ljóst.

„Næsta spurning, takk," sagði Mancini þegar hann var spurður hvort þetta væri merki um nýtt upphaf hjá kappanum. „Ég vona það," bætti hann við.

„Hann þrufti að spila enda ekki spilað heilan leik í 40 daga. Hann hefur æft vel og ég vona að þetta ár verði gott fyrir hann."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×