Erlent

WHO varar við útgáfu ónæmisvottorða

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
WHO segir ekki víst að fólk sem smitast hefur af kórónuveirunni sé með öllu ónæmt.
WHO segir ekki víst að fólk sem smitast hefur af kórónuveirunni sé með öllu ónæmt. MARTIAL TREZZINI/EPA

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) gaf í gær út yfirlýsingu þar sem ítrekað var að ekki væru óyggjandi sannanir fyrir því að ekki væri hægt að smitast aftur af kórónuveirunni sem valdið getur Covid-19 sjúkdómnum. Af þeirri ástæðu varar stofnunin við því að ríki heims gefi út sérstök ónæmisvottorð til þeirra sem smitast hafa af veirunni og náð sér aftur.

Hugmyndin á bak við slíkt skírteini væri að auka frelsi þeirra sem taldir eru ónæmir fyrir veirunni til þess að ferðast, snúa aftur til vinnu eða annað slíkt.

„Eins og stendur eru engar sannanir fyrir því að fólk sem hefur náð sér af Covid-19 og myndað mótefni, sé varið fyrir annarri sýkingu.“

Þannig gæti útgáfa slíkra ónæmisvottorða leitt til aukinnar útbreiðslu veirunnar, þar sem fólk sem teldi sig ónæmt gæti borið hana í aðra.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði fyrr í þessum mánuði að til skoðunar væri að gefa út vottorð lík þeim sem WHO varar við hér á landi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×