Íslenski boltinn

Dómarar vilja helmingshækkun

Kjarafundur er á morgun í deilu knattspyrnudómara og KSÍ. Deiluaðilar eru bjartsýnir á lausn mála en mikill hiti hefur verið í málinu. Dómarar vilja fá helmingshækkun á launum sínum samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2.

Dómarar fá rúmlega 13.600 krónur auk matarpeninga fyrir hvern leik en samningar dómara runnu út um áramótin. Kollegar þeirra á Norðurlöndunum fá eitthundrað þúsund krónur fyrir sömu vinnu. Samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 vilja dómarar á Íslandi fá 25-30 þúsund krónur fyrir hvern leik en dómarar þurfa að greiða skatt af þeirri upphæð líkt og venjulegir launþegar.

Áætla má að fimm til sex klukkustundir fari í hvern leik á höfuðborgarsvæðinu og meira ef leikið er á landsbyggðinni, auk tímafrekra æfinga sérstaklega á undirbúningstímabilinu. Deiluaðilar funda á morgun í hádeginu og er búist við jákvæðum fundi. Það er þó alveg ljóst að báðir aðilar þurfa að slá af sínum kröfum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×