Erlent

Konur afklæðast í kosningabaráttu

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Magdalena Andrzejczyk og Anna Darmochwal halda á auglýsingu flokksins. Þar segir :„Allt fyrir framtíðina og ekkert að fela. Stjórnmálaflokkur kvenna, Pólland er kona.“
Magdalena Andrzejczyk og Anna Darmochwal halda á auglýsingu flokksins. Þar segir :„Allt fyrir framtíðina og ekkert að fela. Stjórnmálaflokkur kvenna, Pólland er kona.“ MYND/AFP

Konur í nýjum stjórnmálaflokki í Póllandi komu fram naktar í umdeildri auglýsingaherferð fyrir þingkosningar í landinu 21. október. Sjö konur skýla sér á bakvið auglýsingaskilti sem á stendur; „Stjórnmálaflokkur kvenna, Pólland er kona."

Herferðin hefur vakið mikla athygli í landinu sem er að miklum meirihluta kaþólskt og stjórnað af Kaczynski tvíburunum sem eru afar íhaldssamir.

Manuela Gretkowska, rithöfundur og stofnandi flokksins segir að stjórnmálum í Póllandi sé stjórnað af mönnum fyrir menn. Veggspjaldinu sé ætlað að brjóta niður staðalímyndir í stjórnmálum sem oftast er stjórnað af þöglum mönnum í svörtum jakkafötum með bindi.

Hún segir: „Við erum fallegar naktar og stoltar. Við erum einlægar og sannar, líkami og sál. Þetta er ekki klám, það er ekkert sem sést á myndunum sem tengja má kynlífi. Andlit okkar eru gáfuleg, umhyggjusöm og stolt."

„Við erum ekki með munninn opinn eða augun lokuð."

Hingað til hafa skoðanakannanir leitt í ljós að flokkurinn nái ekki fimm prósenta þröskuldinum til að koma konu inn á þing. Flokkurinn er þó á uppleið í könnunum og Gretkowska vonar að stuðningur margra þekktustu kvenna í Póllandi geti komið þeim yfir fimm prósenta mörkin og inn á þing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×