Erlent

Heimsendaæði runnið á víða í heiminum

Heimsendaæði er runnið á víða í heiminum vegna þess að hið 5.125 ára gamla dagatal Mayanna rennur út þann 21. desember næstkomandi.

Fólk hamstrar neyðarbirgðir um allan heim þessa dagana. Í Rússlandi er það einkum eldsneyti og salt sem keypt er í stríðum straumum. Þetta hefur gengið svo langt sumstaðar að Medvedev forsætisráðherra landsins hefur tjáð sig um málið. Hann segir að hann trúi því ekki að heimsendir sé í nánd, allavega ekki á þessu ári.

Í Kína hefur kaupæði á kertum runnið á fólk í Sichuan héraði vegna skilaboða á twitter um að stöðugt myrkur verði fyrstu dagana í komandi heimsendi.

Bæjarstjóri í frönsku þorpi á í standandi vandræðum með mikinn fjölda Nýaldarfólks sem telur að fjall við þorpið sé bækistöð geimvera sem hverfa munu á brott við heimsendinn og taka nokkra heppna jarðarbúa með sér.

Í Bandaríkjunum hefur sala á neðanjarðarskýlum margfaldast, Einn sölumaður þeirra segist ætla að fara í sitt skýli þann 19. desember og koma ekki upp aftur fyrr en þann 23.

Í Mexíkó hinsvegar, einu af heimalöndum Mayanna, hafa margir athafnamenn séð gullið tækifæri í komandi heimsendi. Þar er nú verið að skipuleggja ýmsar hátíðir og uppákomur fyrir ferðamenn í tilefni dagsins 21. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×