Vefmyndavélar Mílu gefa til kynna að gosið sé ekki stórt í augnablikinu en ekki er hægt með vissu að gera sér grein fyrir stærðinni af myndunum einum að dæma.
Hægt er að horfa á aðra vefmyndavél Mílu í spilaranum efst í fréttinni.
Á þessu svæði er berggangur sem liggur frá Bárðarbungu og á íslaust svæði norðan Dyngjujökuls. Gangurinn er talinn vera rúmlega 40 kílómetra langur og innihalda um 350 milljónir rúmmetra af kviku svo nægur er efniviðurinn í gos á þessu svæði.
Uppfært klukkan 03:00
Gosið virðist hafa minnkað töluvert á þriðja tímanum. Það sýna vefmyndavélar auk þess sem Rögnvaldur Ólafsson hjá Almannavarnadeild lögreglunnar staðfesti hið sama í samtali við Vísi. Talið er að sprungan sé í kringum 100 metra löng og lítil öskumyndun.
Litakóði vegna flugs hefur verið færður upp í rautt og búið að lýsa 120 sjómílna hættusvæði um hverfis eldstöðina í Holuhrauni. Þó hefur engin flugumferð verið á svæðinu í nótt. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, staðfestir að eldgos hafi engin áhrif á flugumferð en grannt sé fylgst með gangi mála.
Uppfært klukkan 03:15
Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra greinir frá því að nánara mat vísindamannanna tveggja hjá Veðurstofu Íslands, sem staddir eru í Holuhrauni, sé að sprungan þar sem gýs sé um 1 kílómetri á lengd.
Talið var í upphafi að sprungan, sem er um fimm kílómetra norðan Dyngjujökuls og sunnan Öskju, væri 100-300 metra löng. Nú virðist sem hún sé töluvert lengri.
Uppfært klukkan 04:25
Enga virkni er að sjá á vefmyndavélum Mílu á svæðinu. Þorbjörg Ágútsdóttir, doktorsnemi við háskólann í Cambridge, sagði í samtali við Vísi á fimmta tímanum að verulega hefði dregið úr gosvirkni. Hún hefði verið mun meiri fyrr í kvöld en nú væri hún afar lítil. Þorbjörg, sem stödd er í um fimm kílómetra fjarlægð frá gosinu ásamt öðrum vísindamanni, mun standa vaktina fram á morgun. Þau eru hluti af átta manna teymi íslenskra vísindamanna og nema við háskólann í Cambridge.

Vefmyndavél Mílu 2.