Innlent

Nýir sigkatlar gætu bent til goss

Stefán Árni Pálsson skrifar
myndir/ómar ragnarsson/Tobias Dürig
Fjögurra til sex kílómetra langar sprungur hafa myndast í Vantajökli suðaustur af Bárðarbungu. Þetta staðfestir starfsmaður Veðurstofu Íslands. Sigkatlar hafa myndast á svæðinu og ekki er hægt að útiloka að gos sé hafið. Á sama svæði mun kvikugangur hafa hafist fyrr í mánuðinum.

Víðir Reynisson segir að erfitt sé að útskýra sigkatlana með öðru en að töluverður hiti sé undir kötlunum. Þó sé ekki hægt að fullyrða að svo stöddu að eldgos sé hafið.

Samkvæmt upplýsingum frá Samhæfingarstöð Almannavarna hefur vatn ekki komið fram neins staðar enn sem komið er. Vísindamenn frá Jarðvísindastofnun og Veðurstofunni funda nú í húsakynnum Veðurstofunnar. Fundurinn hófst um klukkan tíu.

Ljósmyndarinn Tobias Dürig náði myndum af sprungunum í eftirlitsflugi TF SIF fyrr í dag en þær sjást hér að neðan.

Jarðskjálftavirkni hefur verið töluverð í dag eins og undanfarna daga.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sendi frá sér tilkynningu rétt fyrir klukkan ellefu. Hana má heyra í heild sinni hér að neðan:

Vísindamenn hafa orðið varir við breytingar í norðvestanverðum Vatnajökli. Farið var í vísindamannaflug með TF-SIF yfir jökulinn í dag. Markmiðið með ferðinni var að greina frekar svæðið þar sem jarðskjálftahrinan hefur verið undanfarna daga.

Í fluginu sáust grunnir sigkatlar og sprungur  4–6 km langar við suðaustanverða  Bárðarbungu. Þarna er um 400 til 600 metra þykkur ís. Svæðið er við vatnaskil Jökulsár á Fjöllum og Grímsvatna.

Vísindamenn eru að funda um atburðinn og áætlað er að fljúga aftur yfir svæðið í fyrramálið.

Engin merki eru um gosóróa. Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð hefur verið virkjuð vegna þessara atburða.


Tengdar fréttir

Um 450 skjálftar í nótt

Skjálftavirknin í nótt og í morgun hefur verið mest á um 5 km kafla norður af jökuljaðri Dyngjujökuls og nyrst í Dyngjujökli. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hefur virknin þar færst örlítið til norðurs. Það dró úr virkninni um miðnætti en hún jókst svo aftur um klukkan tvö og fram undir klukkan fimm.

Er Bárðarbungu ekki um að kenna?

Vísindamenn hallast frekar að því að jarðhræringarnar undir Vatnajökli leiði til eldgoss. Komnar eru fram kenningar um að upptöku óróans sé frekar að leita í eldstöðvakerfi Öskju en Bárðabungu. Kröflueldar virðast vera nærtækasta dæmið um framhaldið.

Tveir skjálftar yfir fimm stigum og einn stór nærri Öskju

Meiri skjálftavirkni var á Bárðarbungusvæðinu í nótt en í fyrrinótt og mældust um 500 skjálftar frá miðnætti til klukkan sex í morgun. Þar af mældust tveir yfir fimm stig og fjölmargir skjálftar upp á tvö til þrjú stig mældust einnig.

Lengist um fjóra kílómetra á dag

Síðustu tíu daga hefur berggangurinn undir Vatnajökli lengst um fjóra kílómetra á dag, að meðaltali. Sérfræðingur segir atburðinn einn þann markverðasta sem Íslendingar hafa orðið vitni að, en stærð berggangsins sé vanmetin og stefna hans beint á Öskju allrar athygli verð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.