Víðir Reynisson segir að erfitt sé að útskýra sigkatlana með öðru en að töluverður hiti sé undir kötlunum. Þó sé ekki hægt að fullyrða að svo stöddu að eldgos sé hafið.
Samkvæmt upplýsingum frá Samhæfingarstöð Almannavarna hefur vatn ekki komið fram neins staðar enn sem komið er. Vísindamenn frá Jarðvísindastofnun og Veðurstofunni funda nú í húsakynnum Veðurstofunnar. Fundurinn hófst um klukkan tíu.
Ljósmyndarinn Tobias Dürig náði myndum af sprungunum í eftirlitsflugi TF SIF fyrr í dag en þær sjást hér að neðan.
Jarðskjálftavirkni hefur verið töluverð í dag eins og undanfarna daga.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sendi frá sér tilkynningu rétt fyrir klukkan ellefu. Hana má heyra í heild sinni hér að neðan:
Vísindamenn hafa orðið varir við breytingar í norðvestanverðum Vatnajökli. Farið var í vísindamannaflug með TF-SIF yfir jökulinn í dag. Markmiðið með ferðinni var að greina frekar svæðið þar sem jarðskjálftahrinan hefur verið undanfarna daga.
Í fluginu sáust grunnir sigkatlar og sprungur 4–6 km langar við suðaustanverða Bárðarbungu. Þarna er um 400 til 600 metra þykkur ís. Svæðið er við vatnaskil Jökulsár á Fjöllum og Grímsvatna.
Vísindamenn eru að funda um atburðinn og áætlað er að fljúga aftur yfir svæðið í fyrramálið.
Engin merki eru um gosóróa. Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð hefur verið virkjuð vegna þessara atburða.
Better pic of new fractures in #Holuhraun next to #Dyngjujokull caused by recent earthquakes. Credit Tobias Dürig pic.twitter.com/emb4gSfsli
— Univ. of Iceland (@uni_iceland) August 27, 2014