Enski boltinn

Juventus gæti þurft að selja Ronaldo vegna COVID-19 og þá mögulega til Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það myndu örugglega margir fagna því að sjá Cristiano Ronaldo aftur í búningi Manchester United.
Það myndu örugglega margir fagna því að sjá Cristiano Ronaldo aftur í búningi Manchester United. Getty/Koji Watanabe

Ítalskir fjölmiðlar eru ekki bjartsýnir að Juventus nái að halda öllum sínum stjörnum eftir að kórónuveiran hefur farið sérstaklega illa með allt og alla á Ítalíu. Tvær af stjörnum liðsins eru orðaðar við Manchester United.

Svo alvarlegt er ástandið í Tórínó borg að ítalska blaðið Il Messagero telur að Juventus gæti þurft að selja Cristiano Ronaldo til að fá inn pening og losna um leið við að borga gríðarlega há laun hans.

Cristiano Ronaldo gaf eftir 3,4 milljónir punda af launum sínum í þessari viku eða 602 milljónir íslenskra króna en Juventus samdi um að borga honum 28 milljónir punda á ári eða meira en 4,9 milljarða íslenskra króna.

Það sem eykur líkurnar á áhuga félaga á Ronaldo er ekki aðeins að hann sé enn einn besti knattspyrnumaður heims heldur einnig að staðan á Ítalíu og skyndisala sem þessi hefur áhrif á verðið.

Juventus keypti Ronaldo frá Real Madrid fyrir 102 milljónir punda sumarið 2018 en gæti þurft að selja hann á aðeins 60 milljónir punda.

Cristiano Ronaldo er orðinn 35 ára gamall en er enn spennandi kostur fyrir mörg félög. Manchester United er talið vera eitt af þeim félögum sem myndu sína honum mestan áhuga en þar sló hann fyrst í gegn í byrjun ferils síns.

Það væri vissulega fallegur endir fyrir Manchester United að fá Cristiano Ronaldo aftur heim en í umræddri grein eru forráðamenn Paris Saint Germain einnig sagðir mjög áhugasamir um að kaupa portúgalska landsliðsmanninn.

Manchester United gæti reyndar keypt tvær af stjörnum Juventus liðsins því enska félagið er nú einnig orðað við hollenska miðvörðinn Matthijs de Ligt. United var á eftir honum síðasta sumar en hann fór þá frá Ajax til Juventus. Nú gæti hann verið í boði fyrir enska félagið og það væri vissulega spennandi kaup líka.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.