Fótbolti

Vítið gegn Messi ekki eftirlætisminning Hannesar: „Andvaka til sex og mætti hálf ringlaður til leiks af svefnleysi“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hannes Þór í leiknum umrædda gegn Austurríki.
Hannes Þór í leiknum umrædda gegn Austurríki. Vísir/Getty

Landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson segir að hann hafi ekkert sofið fyrir leikinn mikilvæga gegn Austurríki á EM en með sigri í leiknum komst Ísland upp úr riðlinum og í 16-liða úrslitin.

RÚV hefur undanfarna daga fengið íþróttafólk, bæði núverandi og fyrrverandi, til þess að rifja upp sína bestu íþróttaminningar og Hannes var næstur í röðinni. Það kom einhverjum á óvart að það hafi ekki verið vítið gegn Messi sem stóð upp úr.

Hannes fór aftur til ársins 2016 þar sem Ísland keppti í fyrsta sinn á stórmóti en leikurinn gegn Austurríki varð fyrir valinu hjá Hannesi.

„Leikurinn á móti Austurríki í síðustu umferð riðlakeppninnar á Stade de France í París á EM 2016 er sennilega ótrúlegasti fótboltaleikur sem ég hef spilað,“ sagði Hannes. „Ég var andvaka til sex um morguninn nóttina fyrir leikinn og mætti í hann hálf ringlaður af svefnleysi.“

Ísland skoraði sigurmark leiksins undir blálokin þegar Arnór Ingvi Traustason skoraði og allt ætlaði um koll að keyra. Hannes segir að hann hafi ekki getað ráðið við tilfinningarnar.

„Það var rosalegur léttir þegar við unnum boltann af því ég vissi að þá værum við með þetta. Svo kom í ljós að við vorum komnir í dauðafæri og spennan bara magnaðist og magnaðist þangað til boltinn endaði í netinu og allt sprakk út. Ég brotnaði bara saman á leiðinni til baka þegar dómarinn flautaði svo af.“

„Það er ekki hægt að ímynda sér sætara augnablik. Þarna tryggðum við okkur áfram í 16-liða úrslit með sigurmarki á síðustu sekundu á Stade de France fyrir framan haf af íslenskum stuðningsmönnum eftir hálftíma nauðvörn. Þetta var án efa mesta geðshræring og sigurvíma sem ég hef upplifað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×