Erlent

Norðmenn prófa lyf við kórónuveirunni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ullevål háskólasjúkrahúsið í Ósló.
Ullevål háskólasjúkrahúsið í Ósló. Mahlum/Wikimedia Commons

Prófanir á lyfjum sem vonast er til að geti komið að gagni gegn kórónuveirunni sem valdið getur COVID-19 eru hafnar í Noregi. Fyrsti sjúklingurinn var prófaður á Háskólasjúkrahúsinu í Ósló í gær.

Þetta kemur fram í norskum fjölmiðlum en mbl.is greindi frá fyrst íslenskra miðla.

22 sjúkrahús munu taka þátt í tilraunaverkefninu, en það er unnið á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Þá verður öllum sjúklingum 18 ára og yfir boðið að taka þátt í verkefninu. Lyfið er talið lofa góða, þó það sé langur vegur frá því að öruggt sé að það komi að nokkru gagni við meðhöndlun kórónuveirusjúklinga.

John-Arne Røttingen, hjá norska rannsóknarráðinu, segir í samtali við NRK að þrjú lyf komi til sögunnar í prófunum. Um sé að ræða einskonar ramma utan um lyfjaprófanir hvaðanæva að úr heiminum.

Það lyf sem álitlegast þykir í þessum prófunum er lyfið Plaquenil, en það er malaríulyf. Þá verða einnig gerð próf með lyf sem notuð hafa verið við ebólu og HIV.

Í Noregi hafa greinst um 3600 smit af COVID-19. Rúmlega 300 hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús og á níunda tug á gjörgæslu. Þegar þetta er skrifað hafa greinst um 670 þúsund tilfelli á heimsvísu. 31 þúsund hafa látið lífið, 142 þúsund hafa náð sér og enn er ekki útséð með önnur 494 þúsund. Þó er mikill minnihluti þeirra sem nú eru sýktir af veirunni í alvarlegu ástandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×