Innlent

Vanari því að elta brota­menn en að koma fólki í sóttkví

Eiður Þór Árnason skrifar
Alma Möller landlæknir og Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður smitrakningateymisins, á upplýsingafundi almannavarna.
Alma Möller landlæknir og Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður smitrakningateymisins, á upplýsingafundi almannavarna. Lögreglan

Mikið álag hefur verið á smitrakningateymialmannavarna og sóttvarnarlæknis að undanförnu og hefur verkefnum teymisins fjölgað hratt á stuttum tíma.

Nú er að verða mánuður liðinn frá því að teymið hóf störf og sáu sex sérfræðingar þá um það að rekja fyrstu þrjú tilfelli kórónuveirunnar hér á landi. Nú er svo komið að um og yfir 52 sina verkefnum teymisins og það er nóg að gera.

„Það er rétt svo að fólk hérna gefi sér tíma til að standa upp og næra sig,“ sagði Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður smitrakningateymisins, í útvarpsþættinum Harmageddon.

Hringja frá morgni fram til miðnættis

Vinnan snúist einna helst um að rekja ferðir smitaðra og finna hverjir aðrir gætu hafa orðið útsettir fyrir smiti. Þá þarf að safna saman gögnum um alla þá sem einstaklingurinn hefur hitt nýlega og hafa samband.

Ævar sagði meðlimi teymisins vera á fullu við að hringja í fólk allt frá því klukkan átta á morganna og nánast fram til miðnættis. Mikil breidd sé í teyminu og náið samstarf sé á milli sérfræðinga úr ólíkum áttum.

„Þarna sameinum við sérfræðikunnáttu lögreglumanna og heilbrigðisstarfsfólks, breiddin í hópnum er orðin talsverð. Við erum lögreglumenn, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingur, lífendafræðingar, félagsfræðingar og örugglega eitthvað meira sem ég er að gleyma.“

Vanari því að elta brotamenn

Ævar sagði jafnframt að þetta verkefni sé ólíkt öllum öðrum sem hann hafi tekið að sér.

„Það er ekki hægt að neita því, maður er svona vanari að eltast við brotamenn og rannsaka sakamál,“ en Ævar hefur starfað í rannsóknardeild lögreglunnar.

Almannavarnir stefna að því að koma smitrakningaforriti í loftið á allra næstu dögum. Verður þjóðin beðin um að sækja forritið í síma sína sem fylgist með ferðum fólks og getur þannig hraðað smitrakningavinnu til muna ef upp kemur smit.

Forritið mun að sögn Ævars vera kærkomið verkfæri til að hjálpa þeim að rekja smit, sérstaklega í flóknari tilfellum þar sem sýktur einstaklingur á erfitt með að muna hvar hann hefur verið.

„Ef við myndum bara spyrja þig núna [Frosti], hvar varstu á mánudaginn og hverja hittir þú?“

Ekki hugmynd.

„Nákvæmlega, þá getur þú hjálpað okkur með því að afhenda teyminu þessi gögn og þá getum við farið yfir þau og séð hérna að þú varst eitthvað nálægt Skeifunni.“

Þannig geti upplýsingarnar sem forritið safnar hjálpað fólki að rifja upp hverja þau hittu á hverjum stað og gefið teyminu betri yfirsýn yfir það hverjir hafi mögulega verið útsettir fyrir smiti.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×