Erlent

Lést eftir að hafa inn­byrt efni sem hann taldi Trump segja að hindri smit

Eiður Þór Árnason skrifar
Framleiðsla hófst aftur á lyfinu chloroquine phosphate í Kína eftir hlé þegar vonir kviknuðu um að það gæti hjálpað í barátunni gegn kórónuveirunni.
Framleiðsla hófst aftur á lyfinu chloroquine phosphate í Kína eftir hlé þegar vonir kviknuðu um að það gæti hjálpað í barátunni gegn kórónuveirunni. Getty/Barcroft Media

Karlmaður lést í Arizona-ríki í Bandaríkjunum á dögunum eftir að hafa innbyrt efnið chloroquine phosphate ásamt eiginkonu sinni í tilraun til þess að verja sig fyrir kórónuveirusmiti.

Eiginkonan liggur nú á sjúkrahúsi og er sögð vera í alvarlegu ástandi. Þau innbyrtu efnið eftir að hafa séð Trump Bandaríkjaforseta lýsa lyfi með virka efninu chloroquine sem mögulegri lausn við kórónuveirufaraldrinum.

Efnið chloroquine phosphate sem þau innbyrtu er skylt því sem Trump nefndi og hefur einnig verið selt sem lyf. Það er hins vegar líka notað til þess að hreinsa fiskabúr og höfðu hjónin áður notað það í þeim tilgangi. Konan kannaðist því við heitið chloroquine þegar hún heyrði það í ræðu forsetans.

Chloroquine hefur verið samþykkt af bandarísku lyfjastofnuninni til meðferðar á malaríu, liðagigt og rauðum úlfúm. Ekki hefur verið sýnt fram á að lyfið gagnist gegn kórónuveirunni en rannsóknir standa yfir.

Hjónin sem eru á sjötugsaldri eru sögð hafa veikst fljótlega eftir inntökuna. Í samtali við bandarísku NBC fréttastofuna sagðist konan hafa séð ávarp Trumps þar sem hann ræddi um chloroquine.

Þar talaði hann í löngu máli um að lyfin lofuðu góðu sem hugsanleg fyrirbyggjandi meðferð við COVID-19 sjúkdómnum sem veiran veldur, rétt áður en læknir í faraldursaðgerðarstjórn hans sá sig knúinn til þess að setja góðan fyrirvara.

„Við sáum blaðamannafundinn hans. Það var mikið sýnt frá honum. Trump sagði ítrekað að þarna væri nokkurn veginn um að ræða lækningu,“ sagði konan í samtali við NBC.

„Við vorum hrædd við að verða veik,“ bætti hún við.

Yfir 46 þúsund staðfest smit hafa greinst í Bandaríkjunum og minnst 592 látið lífið af völdum kórónuveirunnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.