Innlent

Meirihluti þeirra sem greindust með kórónuveiruna síðasta sólarhring var í sóttkví

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Meirihluti þeirra sextíu einstaklinga sem greinst hafa með kórónuveiruna síðastliðinn sólarhring var í sóttkví eða um 60 prósent.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á upplýsingafundi um kórónuveirufaraldurinn sem hófst upp úr klukkan 14 í dag.

Þórólfur sagði þetta styðja enn fremur þá aðgerð yfirvalda að beina þeim í sóttkví sem hafa verið útsettir fyrir smiti og forða því þannig að þeir smiti aðra ef og þegar þeir veikjast.

Alls hafa nú 648 einstaklingar greinst með kórónuveiruna hér á landi. Ellefu eru innlagðir á sjúkrahús, þar af tveir á gjörgæslu en enginn er í öndunarvél. Um 10.600 sýni hafa verið tekin og rúmlega 8.000 manns eru í sóttkví.

Erfitt að segja til um hvort það stefni í verstu eða bestu spá

Sóttvarnalæknir sagði faraldurinn enn í uppsveiflu en þar sem það væru sveiflur í fjölgun smita á milli daga færi hann varlega í að túlka tölurnar.

Myndin ætti að skýrast betur þegar nýtt spálíkan verður gefið út í dag eða á morgun af fræðimönnum í Háskóla Íslands.

„Það er erfitt að segja til um hvort við séum að stefna í verstu spá eða bestu spá en það skýrsit betur þegar líkanið verður uppfært,“ sagði Þórólfur.

Þá sagði hann að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til, að beita einangrun og sóttkví, hvetja almenning til hreinlætis, að virða fjarlægðarmörk og svo samkomubann, virðast vera að skila árangri.

Þannig sýni reiknilíkanið til að mynda að meðaltalsaukning nýgreindra hér á hverja þúsund íbúa er með því lægsta sem gerist í Evrópu.

Líkt og fjallað hefur verið um áður er skortur á veirupinnum ákveðið áhyggjuefni. Þórólfur sagði vonir standa til þess að veirufræðideild Landspítalans fái fleiri pinna síðar í þessari viku.

Verið væri að vinna að notkun pinna sem fyrirtækið Össur hefur séð um að útvega og væri nú verið að gera gæðaúttekt á þeim. Um væri að ræða stóran lager af pinnum þannig að ef þeir reynast vel verður aftur hægt að gefa í í sýnatökum.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×