Erlent

Ítalía fer fram úr Kína í dauðsföllum

Kjartan Kjartansson skrifar
Ítalskur lögreglumaður gætir inngangs að hersjúkrahúsi nærri Mílanó.
Ítalskur lögreglumaður gætir inngangs að hersjúkrahúsi nærri Mílanó. Vísir/EPA

Dauðföll vegna kórónuveirufaraldursins á Ítalíu eru nú fleiri en í Kína þar sem veiran skaut fyrst upp kollinum. Alls hafa nú rúmlega 3.400 manns látið lífið á Ítalíu, þar af 427 síðasta sólarhringinn. Dauðsföllum fækkaði engu að síður lítillega á milli daga.

Um 3.245 manns hafa látið lífið í Kína frá því að veiran greindist fyrst þar í desember. Faraldurinn lét fyrst á sér kræla á norðanverðri Ítalíu 21. febrúar. Síðan þá hafa rúmlega 41.000 manns greinst með veiruna á Ítalíu, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Tæplega 2.500 manns eru í gjörgæslu.

Ítalskt þjóðlíf liggur í lamasessi vegna faraldursins. Nærri öllum landsmönnum er sagt að halda sig heima við og verður útgöngubannið áfram í gildi eftir að því átti upphaflega að ljúka í næstu viku, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Svo alvarlegt er ástandið í borginni Bergamo í Langbarðalandi sem hefur orðið einna verst út í faraldinum að herinn hefur verið kallaður út til að flytja lík þeirra sem hafa látist til brennslu.

Í Kína greindust engin ný innanlandssmit í gær og var það í fyrsta skipti sem það gerist frá því að faraldurinn braust út. Hins vegar greindust 34 sem höfðu nýlega snúið heim til Kína eftir dvöl erlendis. BBC setur þann fyrirvara við að ýmsar spurningar hafi verið uppi um hversu áreiðanlegar tölur frá kínverskum stjórnvöldum eru.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×